Áformað er að taka upp sjónvarpsþættina Ófærð 3 að hluta til á Siglufirði í september og október. Þetta kemur fram á trolli.is.

Þar segir að búist sé við því að 60 til 80 manns verði á Siglufirði við tökurnar, sem áætlað er að ljúki í kringum 9. október. Miklar ráðstafanir verða varðandi COVID-19 en sóttvarnafulltrúi verður á setti alla daga. Starfsfólk sem starfar við smink og búninga verður alltaf með grímur og tökulið líka, þegar aðstæður eru þröngar. Allir verða hitamældir þegar komið er inn á sett.

Áætlað er að taka upp senur í Sundlaug Siglufjarðar og verður laugin lokuð á meðan en líkamsrækt og íþróttahús verða opin. Tökur eru fyrirhugaðar frá 24. september en tímasetning gæti hnikast til um einhverja daga. Heimamenn og fyrirtækjaeigendur sem koma að þessu verkefni hafa tekið vel í það, segir í frétt trolli.is.