Vaxandi suðaustanátt í dag, víða 13 til 20 metrar á sekúndu eftir hádegi. Það verður rigning um landið sunnan- og vestanvert, og sums staðar talsverð rigning, einkum á Suðausturlandi. Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings að norðaustantil á landinu verður hins vegar víðast hvar úrkomulítið, en þó eru líkur á dálítilli vætu við ströndina. Hiti verður 6 til 14 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Þá má búast við suðaustan 15 til 20 metrum á sekúndu á gosstöðvunum í dag. Gasmengun leggur yfir norðvestanverðan Reykjanesskaga. Gosstöðvarnar eru lokaðar almenningi í dag.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að greiðfært sé að mestu á landinu en að hálkublettir séu á nokkrum leiðum.

Nánari upplýsingar um veður er að finna á vef Veðurstofunnarog færð vega á vef Vegagerðarinnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:

Suðlæg átt 5-13 og skúrir eða slydduél, en þurrt á N- og A-landi. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast á N-landi. Austlægari og fer að rigna A-til á landinu seinnipartinn

Á sunnudag:

Suðvestan 8-15 og skúrir eða él, en léttskýjað um landið A-vert. Hiti 3 til 8 stig.

Á mánudag:

Vestlæg átt, 3-10 og él, en áfram léttskýjað eystra. Heldur kólnandi.

Á þriðjudag:

Suðvestlæg átt og smáskúrir, en bjart með köflum fyrir austan. Hiti 5 til 10 stig, hlýjast fyrir austan.

Á miðvikudag:

Útlit fyrir vaxandi suðaustanátt með vætu um landið S- og V-vert. Hlýnandi veður