Í Mósambík hófst í morgun þriggja daga þjóðarsorg vegna þeirra 200 einstaklinga sem hafa fundist látin í kjölfar hvirfilbylsins Idai sem fór yfir landið í byrjun vikunnar. Forseti landsins, Filipe Nyusi, sagði seint í gær að staðfest andlát væru 200 en eftir að hafa flogið yfir svæðin sem urðu verst úti taldi hann líklegra að dánartala væri í kringum 1.000. Hvirfilbylurinn fór yfir nokkur lönd í sunnanverðri álfunni og er talinn sá mannskæðasti í marga áratugi. Í nágrannalandinu Simbabve er talið að um 350 séu látin.

Í kjölfar hvirfilbylsins hefur mikið rignt og eru því víða flóð sem hafa gert hjálparsamtökum erfitt fyrir við að bæði nálgast fólk til að bjarga því og til að koma hjálpargögnum eins og mat, vatni og klæðnaði til þeirra sem lifðu af. Talið er að það taki vatnið marga daga að renna af sléttunum í Indlandshafið og enn lengra þangað til hægt verði að greina hversu mikil áhrif hvirfilbylurinn hafði.

Fólk hefur reynt að bjarga sér með því að klifra upp í tré og upp á þök. Hjálparsamtök reyna nú að komast til fólksins til að bjarga því. Sameinuðu þjóðirnar hafa greint frá því að í bærinn Buzi sé í hættu að verða allur undir vatni. Um 200 þúsund búa þar og eru því í hættu á að missa heimili sín.

„Flóðvötn munu rísa talsvert á næstu dögum og setja allt að 350 þúsund manns í hættu,“ sagði í yfirlýsingu frá Sameinuðu þjóðunum.

„Dauðinn er alls staðar“

Í frétt AP News um málið lýsir Amos Makunduwa, íbúi Simbabve, eyðileggingunni í einni setningu „Dauðinn er alls staðar“ og bætti við að lyktin væri orðin slæm.

Þar segir að starfsmenn hjálparsamtaka hafi orðið fyrir áfalli þegar þau komu til borgarinnar Beira í Mósambík en talið er að um 90 prósent borgarinnar sé eyðilögð. 500 þúsund íbúar borgarinnar voru þá í örvæntingu að leita að mat, eldsneyti og lyfjum.

Yfirmaður Rauða krossins í Beira segir að öll helstu hjálparsamtökin eru að margfalda þær upphæðir sem þau hafi fyrst áætlað í neyðaraðstoð.

„Þetta er miklu stærra en nokkur gerði ráð fyrir,“ sagði Caroline Haga hjá Rauða krossinum í Beira.

Evrópusambandið, Bretland, Tansanía, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Samband Afríkuríkja eru meðal þeirra sem heitið hafa að styðja við neyðaraðgerðir með fjárhagsaðstoð.