Félagsheimilið Fossbúð á Skógum er óútleiguhæft og umgengni hefur verið slæm, segir húsnefnd.
Leigusamningnum við ferðaþjónustufyrirtækið Hótel Skóga ehf. var rift og út af stendur skuld vegna leigu.
Eigandi félagsins er Arnar Freyr Ólafsson, nýr oddviti Framsóknarflokksins í Árborg.
Fossbúð er í eigu Rangárþings eystra. Á fundi húsnefndar, sem rædd var í sveitarstjórn í apríl, var fjallað um húsið eftir að sveitarfélagið tók við því á ný.
„Það er mjög illa um gengið og eldhústæki horfin. Ljóst er að mikill kostnaður liggur í að laga húsið,“ segir í fundargerðinni. Enn fremur: „Að svo stöddu er húsið ekki útleiguhæft.“
„Samningnum var rift,“ segir Christine Leonor Bahner, formaður húsnefndarinnar. Hún segist sjálf ekki hafa séð húsnæðið áður en það var leigt Hótel Skógum og að enn sé ekki staðfest hvaða eldhústæki eru horfin. Það sem sé til skoðunar er ofn og fleira.
Christine segist ekki geta upplýst um hversu há leiguskuldin sé. Sveitarfélagið muni aðhafast gegn leigjandanum vegna hennar. „Það er í vinnslu,“ segir hún.