Haldið var áfram með bólusetningu barna í Laugardalshöllinni í dag og hafa nú öll börn á aldrinum 12 til 15 ára fengið boð í bólusetningu. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu, segir mætinguna í dag hafa verið svipaða og í gær.

„Við enduðum líklega í 3.300 [börnum sem mættu] og mætingin virðist bara vera mjög svipuð og í gær, svona sirka tveir þriðju af árgöngunum komu,“ segir Ragnheiður í samtali við Fréttablaðið en börn fædd 2008 og fyrir 1. september 2009 komu í bólusetningu í dag.

Ríflega sjö þúsund börn hafa nú fengið sinn fyrsta skammt af bóluefni Pfizer en aðspurð um hvort fjöldi barna sem mættu í gær og í dag hafi verið í takt við spár heilsugæslunnar segir Ragnheiður að þau hafi ekkert vitað fyrir fram hver þátttakan yrði.

„Við fyrir fram blönduðu skammtana eins og það væri 50 prósent mæting en svo gerðum við ráð fyrir og mönnuðum eins og það yrði 80 prósent, þannig að allt þar á milli myndum við ráða við,“ segir Ragnheiður en hún segir bólusetninguna hafa gengið mjög vel.

Höllin hvíld í bili

Engir stórir bólusetningardagar eru nú fram undan í Laugardalshöll í bili en áfram verður boðið upp á bólusetningu fyrir þá sem komust ekki á sínum tíma. Börn sem eru fædd eftir 1. september 2009 munu geta komið í bólusetningu þegar þau verða 12 ára.

Á landsbyggðinni er hægt að leita til viðeigandi heilsugæslustöðva og á höfuðborgarsvæðinu verður opið í bólusetningu á Suðurlandsbraut alla virka daga milli 10 og 15. Mögulegt er þó að opnum dögum í bólusetningu á Suðurlandsbraut fækki ef fáir eru að týnast inn.

Örvunarbólusetningar næstar á dagskrá

Aðspurð um næstu skref segir Ragnheiður að nú sé verið að vinna að tölvukerfi í kringum bólusetningar þannig hægt sé að sjá þvert yfir hópa og bóluefni þegar sex mánuðir eru liðnir frá seinni skammti og þá kominn tími á örvunarskammt.

„Það er sem sagt verið að forrita kerfið núna, við vonum að það verði búið í lok vikunnar og þá getum við farið að skoða þessa hópa sem eiga að koma næst til okkar í örvunarbólusetningu,“ segir Ragnheiður.

Þrátt fyrir að engir stórir bólusetningardagar séu fram undan að svo stöddu segir Ragnheiður að þau muni líklega halda Laugardalshöllinni ef það kemur til þess að stórir hópar verða boðaðir í bólusetningu seinna meir.

„Hugsanlega verður það þá einu sinni í viku, eins og þegar við vorum í febrúar og mars þá var alltaf svo lítið bóluefni sem við fengum þannig þetta verður svona að títrast inn alltaf. Þannig við náum ekkert að klára það á einu bretti,“ segir Ragnheiður.

Þannig þið eruð svona komin yfir stærsta hjallann í bili?

Já, svo þurfum við að finna bara góðan takt í þessum örvunarbólusetningum næstu mánuði.