Skúli Eggert Sigurz hélt að maðurinn sem stakk hann fimm sinnum með 15 sentímetra veiðihníf, hafi ætlað að faðma sig.

„Hann er mjög nálægt mér og ég hreinlega tók ekkert eftir þessum hníf, hann var með hann inni á sér og hefur sennilega stungið mig þegar ég er kominn alveg up að honum. Ég finn ekki neitt,“ lýsir Skúli Eggert sem varð fyrir hrottalegri hnífaárs fyrir rétt um áratug á lögmannsstofunni Lagastoð í Lágmúla.

Á örfáum sekúndum stakk andlega veikur maður hann margsinnis, í lungu, lifur og nýra, áður en Guðni Bergsson kom fyrstur til bjargar og var sjálfur stunginn tvívegis í lærið.

„Mér fannst ég vera að hitna á neðri partinum af buxunum ég lít niður og sé blóðgusurnar eins og úr garðslöngu. Maður hefur séð þetta í bíómyndum, hjartað pumpar og blóðið spýtist út. Ég áttaði mig strax hvað er í gangi.“

Skúli fann aldrei fyrir stungunum en þegar hann áttaði sig á hvað væri í gangi greip hann í manninn, keyrði hann að hurðinni á skrifstofunni með látum og sagði: „Hvern fjandann ertu að gera, drengur?“

Þá svaraði maðurinn: „Ég hata lögfræðinga“. Við það var Skúli alveg gáttaður og svaraði: „Ég er ekki lögfræðingur.“

Í fyrsta skipti segir Skúli Eggert söguna alla, af kraftaverkinu að geta lifað af svo mikinn blóðmissi að Blóðbankinn tæmdist allur.

Þetta er saga af fádæma æðruleysi og fyrirgefningu. Mannamál kl. 19 annað kvöld og strax aftur kl. 21:00 Hér fyrir neðan má sjá stiklu úr viðtalinu: