Rann­sóknar­blaða­maðurinn Jóhannes Kr. Kristjáns­son rifjaði upp eftir­minni­legt við­tal hans við Sig­mund Davíð Gunn­laugs­son vegna Panama-skjalanna í við­tali við Al­þjóð­legt fé­lag rann­sóknar­blaða­mann í liðinni viku.

„Tíminn stöðvaðist. Ég vissi strax að þetta yrði stór frétt – kannski sú stærsta sem ég myndi nokkurn tíma vinna að,“ segir Jóhannes í við­talinu um það hvernig honum leið þegar hann komst að því að þá­verandi for­sætis­ráð­herra var flæktur í skjölin sem hann var þá að rann­saka.

Hann segir að í marga mánuði hafi þau safnað gögnum um tengsl Sig­mundar Davíðs við Wintris og svo loks þegar hann var til­búinn að ræða það við hann fór hann í sam­starf við sænskan blaða­mann og tók við­tal við Sig­mund sem varpaði fram fleiri spurningum en hann svaraði

Spurður hvernig hann undir­bjó sig fyrir við­talið segir Jóhannes að þau hafi alltaf vitað að þau myndu vilja koma for­sætis­ráð­herra á ó­vart.

„Ís­land er lítið land og ef við hefðum byrjað að hringja á skrif­stofu for­sætis­ráð­herra, ríkis­skatt­stjóra eða hvaða skrif­stofu sem er og spurt um fyrir­tæki sem heitir Wintris þá hefði fréttin borist út á nokkrum dögum og því gerðum við þetta eins og við gerðum það. Það var kjörið fyrir sjón­varp, en til­gangurinn var að fá hans fyrstu við­brögð, því sem for­sætis­ráð­herra hefði hann átt að greina frá því að þetta væri hans fyrir­tæki,“ segir Jóhannes í við­talinu.

Hann segir að það hafi fljótt orðið þeim ljóst eftir að þeir byrjuðu að spyrja um Wintris að þeir væru að gera eitt­hvað rétt því stuttu eftir að spurningarnar fóru að snúast um það þá hætti Sig­mundur Davíð að svara og eins og frægt er gekk að lokum úr við­talinu.

Hann lýsir því hvernig er að vinna að svona frétt í litlu sam­fé­laginu og hvernig hann og eigin­konan hans ein­angruðu sig frá öllum svo að það myndi ekki fréttast út hverju hann væri að vinna að.

Spurður hvort hann finni til á­byrgðar í kjöl­far þess að Sig­mundur Davíð sagði af sér eftir að þátturinn var sýndur segir Jóhannes að þetta sé það sem blaða­mennska snýst um. Hann hafi safnað gögnum og komið þeim á­leiðis til al­mennings sem hafi svo brugðist við eins og þau gerðu.

„Í þessu til­felli var al­menningur reiður yfir þeim upp­lýsingum sem þeim voru af­hent og þau kröfðust þess að hann segði af sér. Það er fegurðin við blaða­mennskuna,“ segir Jóhannes.

Hann segist stoltur af þeirri vinnu sem hann vann að rann­sókninni og að hann telji að blaða­mennska sem nær yfir landa­mæri eins og gerði þarna sé fram­tíðin í blaða­mennsku.

Fjölmennt var á mótmælum vegna Panama-skjalanna.

Erfiðast að fjalla um andlát dótturinnar

Hann einnig að lokum frá sínu nýjasta verk­efni sem er heimildar­mynd um CO­VID-19 far­aldurinn á Ís­landi auk þess sem hann ræðir Kompás þáttinn sem hann gerði í kjöl­far þess að dóttir hans lést að­eins 17 ára gömul úr of­neyslu árið 2010.

„Per­sónu­legasta og erfiðasta umfjöllunin sem ég hef unnið að er um ári eftir að dóttir mín lést. Hún lést úr of­neyslu hér á Ís­landi – morfín­neyslu – og hún var að­eins 17 ára gömul. Sem blaða­maður, að vinna fyrir ríkis­fjöl­miðil þá, vildi ég skoða betur þennan heim ungra fíkla á Ís­landi, svo ég gerði það. Ég fór sem blaða­maður með myndatöku­vélina, tók upp við­töl og dag­legt líf mjög ungs fólks sem neyttu vímu­efna hér á Ís­landi, og sagði sögu dóttur minnar í sjón­varpi. Ég sagði alla söguna. Það var mjög per­sónu­legt, og erfiðasta um­fjöllun sem ég hef unnið að,“ segir Jóhannes.

Hann segir að það hafi hjálpað sér að segja sögu hennar og að um­fjöllun hans hafi opnað augu margra á Ís­landi fyrir neyslu ungs fólks, eða barna, sem hafi þá verið að neyta lyfja eins og mor­fíns og annarra lyf­seðils­skyldra lyfja.

„Auð­vitað var það erfitt fyrir mig, en við lok dags, þá leið mér vel því nú veit fullt af fólki um dóttir mína. Þau vita nafnið hennar, og minning hennar lifir á­fram, og það er mikil­vægt fyrir mig,“ segir Jóhannes.

Hann er að lokum spurður hvaða ráð­leggingar hann hefur fyrir blaða­menn sem eru að taka sín fyrstu skref í greininni og hann ráð­leggur þeim að finna fréttir sem koma frá hjartanu því það séu stærstu fréttirnar.

Hægt er að lesa hér á heima­síðu Al­þjóð­legs fé­lags rann­sóknar­blaða­manna, ICIJ eða eða hlusta á við­talið hér að neðan.