Í dag hófst aðalmeðferð í máli hins opinbera gegn þeim Ragnheiði Freyju Kristínardóttur og Jórunni Eddu Helgadóttur fyrir að mótmæla brottvísun nígeríska flóttamannsins Eze Okafor um borð í flugvél Icelandair í maí árið 2016. Konurnar eru vinkonur mannsins og töldu hann vera í bráðri hættu. Við aðalmeðferð í dag gáfu báðar þær Jórunn Edda og Ragnheiður Helga skýrslu. Þær neituðu báðar sök. 

Sjá einnig: Telja sig ekki hafa brotið lög með því að sýna sam­stöðu

Í málinu verður reynt á réttinn til að mótmæla. Að sögn Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur, lögmanns annarrar konunnar, er einungis eitt dómsmál sem þykir nokkuð sambærilegt allt frá upphafi flugsögu á Íslandi. Málið er stundum kallað flughlauparamálið þegar Haukur Hilmarsson og Jason Thomas Slade hlupu inn á flugbraut í Keflavík til þess að stöðva brottvísun flóttamannsins Paul Ramses, sem vísa átti úr landi árið 2008.

Voru þeir í kjölfarið ákærðir fyrir almannahættubrot og fyrir að raska öryggi loftfara. Dómurinn féllst ekki á að Jason og Haukur hefðu gerst sekir um almannahættubrot, en þeir fengu þeir 125 þúsund króna sekt fyrir það að hafa farið inn á svæðið í óleyfi og þurftu að greiða hluta af kostnað verjanda fyrir vikið. 

„Þetta mál er allt öðruvísi þar sem það er búin að vera ákveðin bylgja af svipuðum mótmælum í Evrópu, til að mynda í Bretlandi, Svíþjóð og ýmis mál í Þýskalandi. Þetta er fyrsta íslenska málið nú í seinni tíð sem varðar þennan rétt til að mótmæla. Það er mjög erfitt að fallast á það með ákæruvaldinu í þessu máli að það hafi falist einhver hætta í þessu. Þegar þær stóðu upp voru dyrnar opnar og það var verið að klára byrðingu. Þær voru dregnar út úr vélinni á um það bil átta mínútum frá því þær hófu að mótmæla og það verður að teljast frekar langsótt af ákæruvaldinu að láta reyna á þetta brot með sex ára refsiramma þegar það er búið að hafna því í máli Hauks og Jason,“ segir Auður Tinna Aðalbjarnardóttir í samtali við Fréttablaðið. 

Ákæran í fjórum liðum. 

„Tilfinningin sem maður fær er, annars vegar að íslenska ríkið sé að fara að fordæmi annarra Evrópuríkja og vilji hafa varnaráhrif með þessari ákæru og hins vegar að það sé verið að skoða hvaða refsiákvæði í löggjöfinni okkar geti passað um þetta mál,“ segir Auður Tinna.

Hún bendir á að einungis hafi verið gefin út ákæra gegn einum manni hér á landi vegna óhlýðni við flugáhafnir en sá maður er Alfreð Clausen sem dæmdur var fyrir að kynferðislega áreita flugfreyju á síðasta ári. „Það er eina fordæmið í dómasafninu hérlendis þar sem hefur verið ákært fyrir að óhlýðnast flugverjum,“ segir Auður Tinna. 

Aðspurð segir hún ýmislegt sérstakt í málinu, í fyrsta lagi að um sé að ræða fjögur refsilagabrot. Í öðru lagi að málið sé sambærilegt öðrum málum í Evrópu, þar sem hefur reynt á réttinn til að mótmæla.

„Það verður áhugavert að sjá hvernig íslenskir dómstólar leysa úr þessu máli því til samanburðar,“ segir hún.

„Svo er þetta þriðja atriði, að þær séu ákærðar sem pólitískir mótmælendur á meðan flugdólgar sem óhlýðnuðust flugverjum í háloftunum eru ekki ákærðir,“ segir hún og bætir við. „Hvort á að vega þyngra, tjáningarfrelsi þeirra og rétturinn til að mótmæla þegar þær héldu að um væri að ræða ólöglega og ómannúðlega brottvísun, eða réttur flugverja til að halda uppi lögum og reglum í vélinni og réttur lögreglunnar til að framfylgja brottvísunum.“ 

Atvikið átti sér stað í maí árið 2016, í flugi frá Keflavík til Svíþjóðar. Það liðu hins vegar rúm tvö ár þar til ákæra var gefin út á hendur Ragnheiðar og Jórunnar og segir Auður Tinna það vera óvenjulegt. Hún bendir á að héraðssaksóknari hafi fallist á það í frávísunarmálflutningi að málið hefði tekið of langan tíma.

„Styrkur í nærveru ykkar“

Í héraðsdómi í morgun var húsfyllir og fengu færri sæti en vildi til að fylgjast með réttarhöldunum. Þau eru opin og var fólk hvatt til að vera viðstatt aðalmeðferðina og styðja þannig við málstað þeirra Jórunnar og Ragnheiðar.

„Það verður styrkur í nærveru ykkar og samstöðu á hvaða tíma dagsins sem er, þar til málflutningi lýkur, klukkan 16 samkvæmt áætlun,“ segir á heimasíðunni Að standa upp, vefsíðu stuðningsfólks Jórunnar og Ragnheiðar, þar sem birtar hafa verið fréttir af málinu og öðrum tengdum málum frá því að það kom upp.  

Stóðu upp og kölluðu á farþega 

Okafor hafði verið neitað um alþjóðlega vernd hér á landi og stóð til að vísa honum úr landi til Svíþjóðar í fylgd lögreglu. Þegar um borð í vélina var komið stóðu Ragnheiður og Jórunn upp og tilkynntu farþegum að verið væri að vísa Okafor ólöglega úr landi og hvöttu aðra farþega vélarinnar til að gera slíkt hið sama.

Þær voru í kjölfarið handteknar og færðar á brott með lögreglu og voru í haldi lögreglu í um sjö klukkutíma. Með hátterni sínu telur saksóknari að þær Jórunn og Ragnheiður hafi reynt að tálma lögreglumenn við skyldustörf, raska öryggi flugvélarinnar og óhlýðnast fyrirmælum áhafnarinnar í vélinni. Myndskeið af mótmælunum var birt á Facecook-síðu samtakanna No Borders Iceland og má sjá hér:

Í kvöld fer fram samstöðufundur á Lækjartorgi. Þar verður aðgerðasinnans Hauks Hilmarssonar einnig minnst, en í dag eru ár frá því að fyrstu fréttir bárust um fráfall hans í Sýrlandi. Nánari upplýsingar um þann viðburð má finna hér.