Erfitt hefur reynst fyrir marga eldri borgara að nýta sér Ferðagjöf stjórnvalda að sögn Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara.

Nokkuð hefur borið á því að félagsmönnum þyki notkun hennar of flókin úrlausnar en slíkt kallar á að fólk eigi snjallsíma eða geti skráð sig inn á þjónustuvefinn Ísland.is.

Engar upplýsingar liggja fyrir um aldursskiptingu þeirra sem hafa nýtt sér Ferðagjöfina og ekki stendur til að safna slíkum upplýsingum að sögn Stafræns Íslands, verkefnastofu innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem sér um útfærslu Ferðagjafarinnar.

Jafnvel nokkur fyrirhöfn fyrir yngra fólk

Þórunn segir helsta vandamálið vera að nokkur fjöldi fólks á þessum aldri eigi ekki snjallsíma.

„Þetta er það sem við erum alltaf að segja, við gleymum því að elsti hópurinn okkar er ekki á netinu.“

Helst eru tvær leiðir í boði fyrir fólk sem vill nýta gjöfina. Annað hvort þarf að sækja hana í smáforrit og framvísa þar strikamerki við kaup á þjónustu eða skrá sig inn á Ísland.is á staðnum til að nálgast strikamerkið þar.

Ekki er hægt að prenta út strikamerkið á Ísland.is þar sem það rennur út 15 mínútum eftir að það er sótt. Að sögn Stafræns Íslands er þetta gert svo strikamerkin geti ekki gengið kaupum og sölum.

„Það er dálítil fyrirhöfn, jafnvel fyrir þá sem eru aðeins yngri að gera þetta,“ bætir Þórunn við.

Ekkert samráð haft við eldri borgara

Tæknihliðin sé ekki eina ástæðan fyrir því að erfitt hafi reynst fyrir suma í hópi eldri borgara að nýta sér gjöfina. Enn séu einhverjir óöruggir með að vera úti á meðal margmennis og treysti sér ekki til að fara á ferðamannastaði.

Að sögn Þórunnar var ekkert samráð haft við félög eldri borgara um útfærslu þessa úrræðis og hefði hún kosið að það væri betur að staðið þessu staðið af hálfu hins opinbera.

Hún segir að margir eldri borgarar velji að gefa börnunum sínum Ferðagjöfina svo hún fari ekki forgörðum.

Boðið upp á ráðgjöf

Í svari frá Vigdísi Jóhannsdóttur, markaðsstjóra Stafræns Íslands, kemur fram að reynt hafi verið að koma til móts við þá hópa sem eiga ekki snjallsíma eða tölvu með ýmsum hætti.

Til að mynda hafi verið fundað með ferðaþjónustuaðilum um það hvernig þeir gætu best aðstoðað þá sem væru minna tæknivæddir og hefðu ekki annan stuðning.

Einnig hafi verið komið á samstarfi við hópa sem gætu átt erfiðara með stafræna þjónustu svo sem sjónskerta, hreyfihamlaða og eldri borgara.

Hægt að nýta gjöfina með því að hringja

Að sögn Vigdísar hefur Stafrænt Ísland þegar haft samband við Félag eldri borgara og boðið upp á ráðgjöf og samstarf en félagið á aðild að Landssambandi eldri borgara.

Þá bendir hún á að þeir sem séu ekki með snjallsíma geti nýtt Ferðagjöfina með því að hringja í ferðaþjónustuaðila og lesa upp talnarununa sem nálgast má á Ísland.is.

Þannig eigi allir sem geti auðkennt sig með Íslykli eða stafrænum skilríkjum á vefnum að geta sótt Ferðagjöfina eða gefið hana áfram.