„Þótt menn séu að dæma í sakamálum alla daga frá morgni til kvölds, þá er ekkert víst að menn hafi tröllatrú á refsingum,“ segir Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, sem náði þeim áfanga í gær að hafa kveðið upp þúsund dóma í málum sem sætt hafa aðalmeðferð.

Um Íslandsmet er að ræða sem Guðjón telur að vart verði slegið. Sá sem kveðið hefur upp næstaflesta dóma hefur stýrt á sjöunda hundrað aðalmeðferðum og þar á eftir eru dómarar sem kveðið hafa upp á þriðja hundrað slíkra dóma.

Guðjón hefur verið í sakamálum alla sína dómaratíð, fyrst í sérstökum sakadómi í ávana- og fíkniefnum snemma á níunda áratugnum.

„Þetta var allt öðru vísi í gamla daga. Þá reyktum við í þinghöldunum.“

„Þetta var allt öðru vísi í gamla daga. Þá reyktum við í þinghöldunum,“ segir hann og rifjar upp stemninguna í fíkniefnadómstólnum, sem starfaði eftir þágildandi rannsóknarréttarfari.

Krimmar fengu Camel hjá dómara og mættu í jarðarför hans

Í skýrslutökum fyrir dómi reykti Guðjón vindil en Ásgeir heitinn Friðjónsson rannsóknardómari reykti Camel og bauð hann gjarnan sakborningum að reykja úr pakka sínum.

„Þá mynduðust í rauninni ákveðin tengsl milli okkar sem störfuðum í dóminum og krimmanna,“ segir Guðjón.

„Þegar Ásgeir dó, þá mætti fullt af mönnum í jarðarförina sem við vorum búnir að vera að úrskurða í gæsluvarðhald og dæma. Þetta myndi ekki gerast í dag, við Héraðsdóm Reykjavíkur.“

Guðjón rifjar upp eftirminnileg atvik á skrifstofu sinni í héraðsdómi.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Leiður á flugeldasýningum

Guðjón er ýmsu vanur og oft hefur spennan í þinghöldum verið rafmögnuð. Það eigi ekki aðeins við í erfiðustu ofbeldismálum heldur einnig og ekki síður í hvítflibbamálum.

Nefnir Guðjón til dæmis að í nokkrum hrunmálanna svokölluðu hafi andrúmsloftið oft verið svo rafmagnað að hann greip til þess ráðs að funda með sækjendum og verjendum fyrir þinghöld til að leggja upp með þeim hvernig þinghaldið færi fram til að freista þess að losna við flugeldasýningar þegar í dómsal væri komið.

Óskum um slíka fundi var hafi iðulega verið vel tekið og oftar en ekki gátu menn sæst á hvernig þinghaldið skyldi fara fram.

Stundum hafi þó komið fyrir, þrátt fyrir fyrra samkomulag, að dómþing hafi ekki fyrr verið sett, en verjendur létu bresta á með flugeldasýningum þá ýmist fyrir fjölmiðlafólk sem mætt var í salinn, eða fyrir skjólstæðinga sína.

Fylgdi hræddum saksóknara út bakdyramegin

Guðjón gefur ekki mikið fyrir allar þær hátternisreglur sem settar hafa verið fyrir þá sem koma inn í dómsal. Dómstólar séu ekki annað en vettvangur mannlegra samskipta. Oftast eigi hann mjög góð samskipti bæði við sækjendur og verjendur og aðilar mála eigi líka iðulega friðsamleg og eðlileg samskipti sín á milli.

Á þessu séu þó vissulega undantekningar.

Guðjón rifjar upp mál hæstaréttarlögmanns sem ákærður var fyrir auðgunarbrot. Mikið hatur hafði myndast milli hins ákærða lögmanns og saksóknarans sem sótti málið.

Þegear Guðjón kvað upp sýknudóm yfir lögmanninum, fékk hann varla að ljúka lestri dómsorðsins áður en saksóknarinn lýsti því yfir að málinu yrði áfrýjað. En þegar dómþinginu var slitið, segir Guðjón saksóknarann hafa verið orðinn svo hræddan við hinn nýsýknaða lögmann, að hann hafi beðið um að fá að verða samferða Guðjóni út úr dómsalnum og út um bakdyr á dómshúsinu.

Gefur engan afslátt

Guðjón hefur það orð á sér að vera ákæruvaldinu erfiður, og mildur í garð afbrotamanna.

„Ég gef engan afslátt,“ segir Guðjón um lög og reglur sem gilda um rannsóknir sakamála og tekur dæmi um þúsundasta dóminn sem kveðinn var upp í gær, þar sem sýknað var af ákæru um meiðyrði.

Engum sakfellingardómi verið snúið á áfrýjunarstigi

Þess má geta að þrátt fyrir mikinn málafjölda, hefur Guðjón aldrei kveðið upp sakfellingardóm sem snúið hefur verið í sýknu af æðra dómstigi.

Aðspurður um mildina gerir Guðjón játningu: „Ég hef ekki nokkra trú á refsingum. Þess vegna eru þær alltaf svona lágar hjá mér,“ segir hann og kímir.

„Ég hef ekki nokkra trú á refsingum. Þess vegna eru þær alltaf svona lágar hjá mér.“

„Þetta er bara mín lífsskoðun,“ bætir hann við og nefnir fíkniefnamálin sem dæmi. Það þurfi ekki langa umræðu til að sjá þær ógöngur sem menn séu komnir í á þeim vettvangi til dæmis í Bandaríkjunum en einnig hér á Íslandi.

Guðjón hefur hins vegar átt meiri samskipti við glæpastétt landsins en flestir og hefur því ágæta innsýn í hugarheim svokallaðra góð­kunningja lögreglunnar.

Ekkert vit í að senda alla austur

„Maður veit alveg hvað er að hjá þessum strákum, því oftast eru þetta fínir strákar. Bæði eru þeir greindir og gætu gert það sem þeir vildu. Þeir þurfa bara að láta renna af sér.“ Taka þurfi hugarfar þeirra sjálfra með í reikninginn þegar refsing sé ákveðin.

Það vinnist ekkert með því að þeir sem hafi leitað sér hjálpar og geti komið lífi sínu á réttan kjöl, séu „sendir austur á Litla-Hraun í fleiri mánuði eða ár.“