Enn er hætta á berg­hruni úr suður­hlið Reynis­fjalls og verður austasta hluta Reynis­fjöru því haldið lokuðum um sinn. Svæðið verður vaktað á meðan lokuninni stendur og að­vörunar­skilti verða upp­færð. Þá hyggst lög­regla koma á fram­færi frekari fræðslu og upp­lýsingum til gesta svæðisins.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni á Suður­landi, eftir fund hennar með rekstrar­aðilum í Svörtu Fjöru, hluta land­eig­enda í Reynis­fjöru, sveitar­stjóra Mýr­dals­hrepps og full­trúum Veður­stofunnar og Vega­gerðarinnar.

Á fundinum voru lögð fram gögn frá Veður­stofu Ís­lands sem sýna að enn er hætta á berg­hruni. Var þar af leiðandi tekin á­kvörðun um að halda lokunar­borða og vakta svæðið og að vinna að út­færslu á frekari lausn á lokun á þessum hluta fjörunnar.

Erfið­lega hefur gengið að halda ferða­mönnum frá þessum austasta hluta fjörunnar, en þeir hafa margir hverjir virt lokunar­borða að vettugi. Tveir hafa nú þegar slasast eftir að grjót féll úr Reynis­fjalli. Lög­regla hyggst því auka fræðslu og upp­lýsingar, og mun fara í vinnu við upp­færslu og sam­ræmingu að­vörunar­skilta við göngu­stíginn sem liggur niður í fjöruna.