Reynir Trausta­son, ritstjóri Mannlífs, segir að hann og hans starfs­fólk vinni nú að því að koma öllu aftur í stand á skrif­stofu Mann­lífs eftir að brotist var þangað inn og í bíl hans, tækjum stolið og fréttum og um­fjöllunum eyddum af vef hans. Málin eru bæði komin á borð lög­reglunnar.

Reynir segir í færslu á Face­book-síðu sinni í dag að meðal þess sem að hvarf af vefnum séu um­fjallanir Mann­lífs um ó­nefndan auð­mann sem munu birtast á næstunni.

Mann­líf hefur undan­farið fjallað ítar­lega um meinta hátt­semi auð­mannsins Róberts Wess­man og til stóð að flytja fleiri fregnir um málið. Reynir greindi frá því ný­lega á Face­book að banda­rísk lög­manns­stofa hafi krafið Mann­líf fyrir hönd Róberts að fjöl­miðillinn af­henti þeim gögn að baki frétta þeirra um líf­láts­hótanir hans, meint of­beldi gegn sam­starfs­fólki og önnur mál sem að honum snúa.

Í við­talið við Frétta­blaðið í gær sagðist Reynir ekki geta full­yrt um það hvort að um­fjöllun Mann­lífs um Róbert Wess­man tengist inn­brotinu og á­rásinni á vefinn en sagði tíma­setninguna á­huga­verða.

„Eftir erfiðan dag í gær hefur rofað til. Lét skipta um læsingar á heimili mínu og ná­grannar sjá um að vakta ó­eðli­legar manna­ferðir. Tjónið af inn­brotinu í bílinn minn og á rit­stjórnar­skrif­stofurnar er mikið, bæði fyrir mig per­sónu­lega og fyrir út­gáfuna. Þetta var í senn þjófnaður á stórum hluta úti­vistar­búnaðar míns, tölvum á rit­stjórn og skemmdar­verk á mann­lif.is og bif­reið. Enn eigum við eftir að ná upp nokkrum fréttum sem glæpa­mennirnir eyddu í fyrri­nótt en mann­lif.is er að öðru leyti opinn og virkur. Strákarnir á Kaktus hafa þar unnið þrek­virki í að bjarga málum.

Á meðal þess sem hvarf eru áður birtar, ítar­legar um­fjallanir um ó­nefndan auð­mann sem munu birtast á næstunni,“ segir Reynir í færslunni.

Hann segir á­rásina mikið högg en þakkað þeim sem hafa hjálpað og sér­stak­lega for­manni Blaða­manna­fé­lags Ís­lands en fé­lagið sagði í gær að þau litu á­rásina mjög al­var­legum augum. Hann kallar í færslu sinni eftir samstöðu meðal fjölmiðla gegn slíkum árásum.