„Vanþakklátasta starf á Íslandi er að vera rannsóknarblaðamaður sem flettir ofan af einhverju. Vegna þess að um leið og það er búið þá koma „þeir“ á þig,“ segir Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs sem varð fyrir þeirri reynslu fyrir helgi að brotist var inn í bíl hans stolið lyklum af ritstjórninni og síðan brotist þar inn, unnin skemmdarverk og reynt að eyðileggja gögn.
Reynir segist einnig hafa vitneskju fyrir því að setið hafi verið um heimili hans. Reynir verður í viðtali á Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld. „Við sjáum t.d. Helga Seljan, það er setið um hann, Samherji, af heilli skæruliðadeild og hann er ofsóttur,“ segir Reynir.
Hann segir að flestir fordæmi slíka háttsemi en vandinn sé að það eru einhverjir þarna sem segja „hann eiga þetta skilið“.
Hann segist finna glöggt að lögreglan hafi gríðarlegan metnað í að upplýsa þetta mál, og að það sé góð tilfinning, því auðvitað sé það mjög alvarlegt mál fyrir frelsi fjölmiðla í landinu að slíkt viðgangist. Reynir segist líka vera með sína eigin rannsókn á málinu og að hann sé mjög nálægt því að vita hvað gerðist og hver braust inn.
Nánar verður rætt við Reyni í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.