Ekkert hefur spurst til 45 ára breskrar konu, Nicolu Bulley, síðan að morgni föstudagsins 27. janúar síðastliðinn.
Hvarf hennar hefur vakið mikla athygli í breskum fjölmiðlum. Fyrr þennan örlagaríka morgun hafði Nicola skutlað dætrum sínum í skólann áður en hún fór í göngutúr með heimilishundinn Willow meðfram ánni Wyre sem rennur í gegnum bæinn St Michael‘s On Wyre.
Nicola sást á göngu klukkan rúmlega níu að morgni föstudagsins en klukkutíma síðar fannst hundurinn Willow einn á gangi skammt frá. Þá fannst sími Nicolu og beisli hundsins á bekk við ána. Nicola var aftur á móti hvergi sjáanleg og virtist hreinlega hafa horfið sporlaust.
Ýmsum kenningum hefur verið varpað fram um hvarfið og til að byrja með þótti lögreglu líklegt að hún hafi dottið í ána og drukknað. Mögulega hefði verið um slys að ræða, henni skrikað fótur eða hún hreinlega fallið í yfirlið og dottið út í. Kafarar og björgunarsveitir hafa leitað í ánni og meðfram henni undanfarna daga en án árangurs.

Peter Faulding, reynslumikill kafari og stofnandi Specialist Group International, fyrirtækis sem fengið var til að aðstoða við leitina í gær, sagði í samtali við Good Morning Britain í morgun að dagurinn í dag myndi ef til vill leiða ýmislegt í ljós.
Varpar hann þeirri kenningu fram að ef Nicola finnst ekki í ánni í dag sé nánast útilokað að hún hafi dottið í hana. Þar af leiðandi mætti draga þá ályktun að einhver utanaðkomandi beri ábyrgð á hvarfi hennar.
Peter hefur fengist við leitir af þessu tagi í 20 ár og hann segist aldrei hafa glímt við jafn óvenjulegt mál. Hann segist hafa þá tilfinningu að Nicola hafi ekki farið í ána og möguleiki sé á að henni hafi verið rænt. Lögregla hefur unnið út frá þeirri kenningu að hún hafi dottið í ána en hefur ekki viljað útiloka aðra möguleika.
Peter sagðist hafa rætt við eiginmann Nicolu, Paul, í gærkvöldi og spurt hann hvort Nicola hefði átt einhverja óvini. Hann hafi svarað þeirri spurningu neitandi og bent á að hún hafi verið eðlileg kvöldið áður en hún hvarf og ekkert bent til þess að eitthvað óeðlilegt væri á seyði.
Peter benti á að áin væri straumlítil og Nicola gæti ekki hafa farið langt, hafi hún á annað borð dottið í ána og drukknað. „Vanalega, í svona kringumstæðum, finnum við viðkomandi þar sem hann fór út í. Hún hefði ekki færst langt, mögulega nokkra metra. Þetta er mjög skrýtið. Á mínum tuttugu árum í þessum bransa hef ég komið að mörgum málum, en engu jafn óvenjulegu og þessu.“