Sveinn Hjörtur Guðfinnsson þekkir vel skuggahliðar næturlífsins eftir að hafa starfað sem varðstjóri og sérfræðingur í áfallahjálp hjá Neyðarlínunni og ekki síður sem dyravörður á skemmtistöðum í miðbæ Reykjavíkur um langt árabil. Hann segir fimm ára fangelsisdóm, yfir manni sem réðist að dyraverði á kampavínsklúbbnum Shooters með þeim afleiðingum að hann er lamaður fyrir lífstíð, vera til mikillar skammar.

Sjá einnig: Fimm ára dómur í Shooters-máli

„Þetta er hrikalegt. Þetta eru hrikaleg skilaboð,“ segir Sveinn Hjörtur í samtali við Fréttablaðið. „Félagi minn er lamaður eftir þessa árás og líf hans verður gjörbreytt en árásarmaðurinn verður líklega laus eftir tvö til þrjú ár. Þessi dómur er dómskerfinu og samfélaginu til háborinnar skammar. Menn komast í raun upp með að örkumla fólk.“

Sveinn Hjörtur segir að leiðir hans og dyravarðarins sem lamaðist hafi legið saman í dyravörslunni og einnig í kraftlyftingum þar sem sá síðarnefndi þótti býsna öflugur.

„Ég heimsótti hann og gat ósköp lítið gert annað en taka í höndina á honum, strjúka honum um kollinn og segja honum að hann væri ekki einn. Hann með góða vini með sér.“

Sjá einnig: Verkjaður og ósjálfbjarga á Grensás

„Hann var hrærður en alveg búinn að átta sig á því að hann verður lamaður það sem eftir er. Þetta er strákur sem keppti í kraftlyftingum og er hörkunagli. Þeir fóru með offorsi að honum og ætluðu sér að gera þetta. Það er það sem er orðið svo hættulegt í dag.“

Vopnaðir hermenn

Sveinn Hjörtur segir dyravarðastarfið vera orðið miklu hættulegra en það var fyrir nokkrum árum og þótti þá nóg um. „Þetta er orðið allt öðruvísi en þegar ég var í þessu en um það leyti sem ég var að hætta vorum við nokkrir komnir í högg- og stunguheld öryggisvesti.“

Sjá einnig: Rannsaka meint mansal og milligöngu um vændi

„Við vorum líka komnir í sérstaka Kevlar-hanska sem hlífðu okkur fyrir brotnum glösum og bjórflöskum sem fólk hikaði ekki við að kasta í átt að okkur,“ segir Sveinn Hjörtur og bætir við að mikið sé um að menn gangi um vopnaðir og margir sem hingað eru komnir hafi fengið herþjálfun.

Sveðjur á lofti

„Vopnaburður orðinn svo algengur og ég hef til dæmis fengið á mig menn með sveðjur innanklæða. Þeir ætluðu sér inn á staðinn hvað sem tautaði og raulaði og létu þá skína í vopnin. Ég hef þurft að snúa niður mann með hníf og kært konu fyrir líkamsárás eftir að hún beit mig til blóðs og reyndi að sparka í klofið á mér,“ segir Sveinn Hjörtur um skuggahliðar næturgleðinnar sem eru orðnar enn dekkri en þegar hann stóð vaktina.

„Þetta er allt breytt og það er bara staðreynd að það þarf að þjálfa dyraverði miklu, miklu betur og þá er algert lykilatriði að þjálfunin fari fram í samráði við lögreglu, sjúkraflutningafólk og annað fagfólk. Menn verða að vita hvernig þeir eigi að bregðast við og hvaða heimildir þeir hafa. Hvað þeir megi gera og hvað ekki,“ segir Sveinn Hjörtur.

„Þetta var svona í gamla daga. Þá fórum við í gegnum námskeið. Í dag labbar þú bara inn á lögreglustöð með hreint sakarvottorð og sækir um dyravarðaskírteini sem þú færð nokkrum dögum síðar.“