Tveir menn voru handteknir eftir að hafa reynt að fremja þrjú rán í Breiðholti í gærkvöldi. Fyrst rændu þeir síma af ungling, rúmlega klukkustund síðar veittust þeir að manni á göngustíg og kröfðu hann um úlpu, peninga og síma en maðurinn komst undan án þess að afhenda eigur sínar. Eftir það fór fram mikil en árangurslaus leit, en um klukkustund síðar voru mennirnir handteknir eftir að hafa rænt síma og fleiru af 13 ára dreng. Þeir voru vistaður í fangageymslu lögreglu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Rétt eftir hálfellefu var maður handtekinn í Bústaðahverfi. Lögregla þurfti að hafa ítrekuð afskipti af manninum um kvöldið þar sem hann var að fara inn í hús eða hótel og leggjast til svefns. Hann var vistaður í fangageymslu sökum ástands.

Um tvö var kona í annarlegu ástandi handtekin í Hlíðahverfi eftir að hafa ruðst inn í íbúð hjá ókunnugum. Hún var vistuð í fangageymslu sökum ástands.

Þrjú innbrot voru tilkynnt í gærkvöldi og nótt. Rétt fyrir sjö í gærkvöldi var brotist inn í Garðabæ en þar var farið inn um glugga og verðmætum stolið. Það næsta var í fyrirtæki í miðborginni um eitt, en þar var gluggi brotinn og farið inn. Ekki er vitað hverju var stolið. Öryggisvörður sá svo tvo menn hlaupa af vettvangi innbrots á heimili í miðborginni um hálffjögur og ekki er heldur vitað hverju þeir stálu.

Tveir ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum, annar þeirra hefur ítrekað ekið sviptur ökuréttindum og hinn hafði ekki ökuskírteini sitt meðferðis.

Fljótlega eftir níu var tilkynnt um umferðaróhapp á Reykjanesbraut, en þar missti ökumaður bifreiðar annað framdekkið undan bílnum. Sá var nýkominn af dekkjaverkstæði til að fá nagladekk og bíllinn var fluttur aftur á verkstæðið með dráttarbifreið og ökumaðurinn aðstoðaður heim.