Mynd­band sem sýnir lög­reglu­mann reyna að setja átta ára pilt í hand­járn í grunn­skóla einum í Flórída í Banda­ríkjunum hefur vakið tals­verða at­hygli.

Pilturinn hafði unnið sér það eitt til saka að vilja ekki sitja kyrr í mat­sal skólans og þegar kennari freistaði þess að leiða hann á brott með sér sló hann til kennarans.

Í umsjón forfallakennara

NBC News fjallar um þetta en at­vikið átti sér stað í desember 2018. Mynd­bandið kom fyrst fyrir sjónir al­mennings um helgina þegar lög­maður, Benja­min Crump að nafni, birti það á Twitter. Crump þessi hefur meðal annars unnið fyrir fjöl­skyldu Banda­ríkja­mannsins Geor­ge Floyd sem var myrtur af lög­reglu­manni fyrr á árinu.

Eðli málsins sam­kvæmt er Crump mjög gagn­rýninn á vinnu­brögð lög­reglu í máli drengsins og hyggst hann stefna lög­reglunni fyrir hönd for­ráða­manna hans. Hann segir að pilturinn sé með sér­þarfir, glími við hegðunar­vanda en um­ræddan dag hafi for­falla­kennari haft hann í sinni um­sjón.

Handjárnin of stór

Í frétt NBC News kemur fram að um­ræddur kennari hafi beðið piltinn um að setjast hjá sér í mat­sal skólans en pilturinn neitað því. Þegar hún bað hann að koma með sér, mögu­lega inn á skrif­stofu skóla­stjóra, sagði hann henni að leggja ekki hendur á sig. Það gerði hún engu að síður og sló þá pilturinn til kennarans.

Í kjöl­farið hringdu skóla­yfir­völd á lög­regluna sem freistuðu þess að hand­taka drenginn. Eins og kemur glögg­lega fram í mynd­bandinu sem sjá má hér neðst í fréttinni gekk það ekki þar sem hand­járnin voru of stór fyrir úln­liði piltsins. Hann var engu að síður leiddur burt af lög­reglu og kærður fyrir líkams­á­rás.

Í frétt NBC er vitnað í við­brögð lög­reglu vegna málsins en þar segir lög­reglu­stjórinn í Key West, Sean T. Branden­burg, að lög­regla hafi farið eftir settum reglum. Hann geri engar at­huga­semdir við störf lög­reglu­manna á vett­vangi.