Samherji reyndi að hafa áhrif á niðurstöðu í formannskjöri í stéttarfélagi blaðamanna, Blaðamannafélag Íslands (BÍ). Frá þessu er greint í frétt á vef Kjarnans í dag. Þar segir að það hafi valdið hópi starfsmanna Samherja, sem kalla sig „skæruliðadeild Samherja“ nokkrum áhyggjum að Sigríður Dögg Auðunsdóttir, starfsmaður RÚV, hafi ákveðið að bjóða sig fram á móti Heimi Má Péturssyni, sem starfar hjá Sýn.

Í frétt Kjarnans segir að rætt hafi verið meðal þessa starfsfólk að starfsfólk RÚV hefði skráð sig í Blaðamannafélag Íslands til að fá Sigríði Dögg kjörna og að þau, skæruliðadeildin, þyrftu að taka símtöl til að koma í veg fyrir að starfsmenn einkarekinna fjölmiðla, Vísis, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, myndu kjósa hana líka.

Í spjall hópsins var skrifað: „Það þarf samt að fara mjög fínt í þetta því við viljum heldur ekki að það spyrjist út að Samherji eða ráðgjafar Samherja séu uggandi yfir stöðunni og séu að hjálpa til í smölun gegn fulltrúa RÚV.[...]Best væri ef ritstjórar einkareknu miðlanna tækju af skarið og ræddu við sitt fólk.[...]Þess vegna þarf að fara yfir þetta með þeim.“

Ljóst er að ætlun „skæruliðadeildarinnar“ tókst ekki því Sigríður Dögg var kjörin formaður félagsins með 54,6 prósent atkvæðum.

Talsvert hefur verið fjallað um þennan hóp starfsmanna á vef Stundarinnar og Kjarnans undanfarna daga en í gær voru birtar frásagnir af því hvernig tveir ein­staklingar sem störfuðu fyrir sjávar­út­vegs­fyrir­tækið Sam­herja skrifuðu og ritstýrðu greinum til varnar fyrir­tækinu sem birtar voru undir nafni Páls Stein­gríms­sonar, skip­stjóra Sam­herja, á frétta­miðlum á borð við Vísi.

Um er að ræða al­manna­tengilinn Þor­björn Þórðar­son, sem ráðinn var af Sam­herja sem utan­að­komandi ráð­gjafi eftir að Sam­herja­skjölin voru af­hjúpuð, og lög­manninn Örnu Bryn­dísi McClu­re Bald­vins­dóttur, sem er einn lykil­starfs­maður út­gerðarinnar.