Öku­maður sem lög­regla stöðvaði í mið­bænum í gær­kvöldi reyndi að villa um fyrir lög­reglu­mönnum með því að segja rangt til nafns. Það tókst ekki sam­kvæmt dag­bók lög­reglu.

Þar segir að maðurinn hafi verið stöðvaður vegna gruns um akstur undir á­hrifum fíkni­efna. Þá er hann jafn­framt grunaðr um í­trekaðan akstur hafandi verið sviptur öku­réttindum.

Þá fékk lög­reglan til­kynningu um mann sem reyndi að brjótast inn í hús í Ár­bænum skömmu eftir mið­nætti. Sá sem til­kynnti inn­brotið lét lög­reglu vita stuttu síðar að hann væri búinn að hand­taka inn­brots­þjófinn á­samt öðrum. Beið hann þar lög­reglu og var þjófurinn vistaður í fanga­klefa í þágu rann­sóknar.

Skömmu fyrir mið­nætti í gær fékk lög­reglan til­kynningu um um­ferðar­ó­happ í mið­bænum. Engin meiðsl hlutust en tjón varð á við­komandi bílum. Er annar öku­maður grunaður um akstur undir á­hrifum á­fengis og var hann vistaður í fanga­klefa í þágu rann­sóknar.

Lög­reglan stöðvaði auk þess þrjá bíla í gær­kvöldi þar sem öku­menn voru grunaðir um akstur undir á­hrifum á­fengis og/eða fíkni­efna. Einn öku­mannanna var í þokka­bót grunaður um vörslu fíkni­efna.