Einn var fluttur á slysadeild um klukkan 16 í gær eftir að hafa skaðað sjálfan sig í verslun í Smáralind. Að sögn lögreglu er einstaklingurinn ekki grunaður um nokkuð saknæmt en hann hafði hníf meðferðis.
Gunnar Hilmarsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir atvikið hafa átt sér stað á tíma þar sem töluverður fjöldi er í verslunarmiðstöðinni. Hann segir starfsfólki verslunarinna og Smáralindar hafa verið leiðbeint um það hvernig þau geti sótt sér áfallahjálp hjá Rauða krossinum.
Sveinn Stefánsson þjónustustjóri hjá Smáralind segir ákveðna ferla fara í gang þegar slíkt gerist í verslunarmiðstöðinni en vildi ekki frekar tjá sig um málið.
„Aðilinn fékk aðhlynningu og var fluttur á slysadeild. Það eru ferlar innanhúss ef til kemur,“ segir hann.
Glímir þú við sjálfsvíghugsanir ráðleggjum við þér að ræða málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins. Einnig reka Píeta samtökin gjaldfrjálsa þjónustu fyrir fólk í sjálfsvígshættu, sem glímir við sjálfsvígshugsanir og aðstandendur þeirra.