Myndir náðust af þjófi að ræna tölvu frá veitingahúsi við Laugaveg í gærkvöldi. Lögreglan fékk tilkynningu um þjófnaðinn klukkan 22:34. Maðurinn var handtekinn síðar og var vistaður fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu.

Par reyndu að komast hjá því að greiða reikninginn á veitingahúsi í hverfi 108 í Reykjavík. Lögreglan fékk tilkynningu rétt fyrir klukkan 22 í gærkvöldi. Parið hafði pantað sér mat og áfenga drykki og fóru út að reykja að hafa klárað að borða og drekka. Þá reyndu þau að stinga af og þurfti starfsfólk að elta parið þar til lögreglan mætti á vettvang. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Lögreglan þurfti að hafa afskipti af konu í annarlegu ástandi við veitingahús í miðbænum. Hún barði í bíla og neitaði að fara eftir fyrirmælum lögreglu. Hún var vistuð í fangageymslu lögreglu sökum ástands. Þetta gerðist rétt eftir klukkan fjögur í nótt.

Brotist var inn á heimili í Hlíðunum í nótt. Farið var inn í húsið og stolið verðmætum á meðan húsráðendur voru ekki heima. Tilkynnt var um þetta klukkan tvö í nótt.

Lögreglan þurfti að stöðva samkvæmi í Grafarholti eftir að tilkynnt var um hávaða í íbúð klukkan korter í fjögur í nótt. Lögreglan þurfti að hafa afskipti af húsráðana og gestum vegna vörslu og neyslu fíkniefna í samkvæminu.

Þónokkrir óku undir áhrifum í nótt

Umferðaróhapp varð í hverfi 108 í nótt. Ekið var á bíl og flúði ökumaður frá vettvangi. Hann var handtekinn skömmu síðar og var grunaður um ölvun við akstur. Ökumaðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Allt að ellefu ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Flestir voru stöðvaðir í Kópavogi og Breiðholti. Tveir ökumenn höfðu ekki ökuskírteini meðferðis. Tveir aðrir voru einnig grunaðir um brot á vopnalögum. Einn ökumaður var sviptur ökuréttindum.

Ungur ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur. Hann reyndist vera 17 ára gamall og var málið afgreitt með aðkomu foreldra og tilkynnngu til Barnaverndar.

Bifreið var stöðvuð i hverfi 105 eftir að hafa verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi.  Ökumaðurinn var grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og brot á vopnalögum.