Maður var handtekinn í Hafnarfirði laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Ökumaðurinn reyndi að flýja lögreglu við afskiptin, en var handsamaður eftir skamma eftirför á fæti og handtekinn. Þá er hann einnig grunaður um að aka bifreið sinni á röngum skráningarmerkjum og án ökuréttinda. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Að öðru leyti var nóttin frekar róleg á höfuðborgarsvæðinu að sögn lögreglu. Þó nokkrar tilkynningar bárust þar sem óskað var eftir aðstoð vegna veðurs, en lögregla fékk þó nokkrar tilkynningar um hurðir sem höfðu fokið upp og gervihnattadiska sem höfðu losnað. Þá bárust einnig tilkynningar vegna hávaða eða slagsmála.
Þrír ökumenn voru stöðvaðir við akstur í miðborginni í nótt. Þeir eru allir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Við nánari eftirgrennslan lögreglu reyndist einn þeirra einnig hafa verið sviptur ökuréttindum. Allir ökumennirnir þrír voru teknir í sýnatöku og látnir lausir úr haldi lögreglu eftir hefðbundið ferli á lögreglustöð.