Maður var hand­tekinn í Hafnar­firði laust fyrir klukkan tíu í gær­kvöldi grunaður um akstur undir á­hrifum fíkni­efna. Öku­maðurinn reyndi að flýja lög­reglu við af­skiptin, en var hand­samaður eftir skamma eftir­för á fæti og hand­tekinn. Þá er hann einnig grunaður um að aka bif­reið sinni á röngum skráningar­merkjum og án öku­réttinda. Þetta kemur fram í dag­bók lög­reglu.

Að öðru leyti var nóttin frekar ró­leg á höfuð­borgar­svæðinu að sögn lög­reglu. Þó nokkrar til­kynningar bárust þar sem óskað var eftir að­stoð vegna veðurs, en lög­regla fékk þó nokkrar til­kynningar um hurðir sem höfðu fokið upp og gervi­hnatta­diska sem höfðu losnað. Þá bárust einnig til­kynningar vegna há­vaða eða slags­mála.

Þrír öku­menn voru stöðvaðir við akstur í mið­borginni í nótt. Þeir eru allir grunaðir um akstur undir á­hrifum fíkni­efna eða á­fengis. Við nánari eftir­grennslan lög­reglu reyndist einn þeirra einnig hafa verið sviptur öku­réttindum. Allir öku­mennirnir þrír voru teknir í sýna­töku og látnir lausir úr haldi lögreglu eftir hefð­bundið ferli á lög­reglu­stöð.