Rétt fyrir miðnætti barst lögreglu tilkynning um tilraun til innbrots í hús í Árbæ. Um klukkutíma síðar var tilkynnt um aðra innbrotstilraun á svæðinu og var þar um sama mann að ræða ef marka má lýsingar tilkynnenda.

Fram kemur í dagbók lögreglu að hinn grunaði hafi síðan sést á bifreið og ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu.

Í lok eftirfarar um hverfið hljóp maðurinn inn í Elliðárdalinn en eftir nokkra leit var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu. Í ljós kom að bifreiðinni hafði verið stolið af seinni innbrotsstaðnum.

Rúmlega níu í gærkvöld barst tilkynning um hópasöfnun ungmenna. Voru einhverjir sagðir vopnaðir og undir áhrifum fíkniefna, að sögn lögreglu. Sumir fóru strax þegar lögregluþjónar komu á vettvang sem fylgdust með restinni um nokkra stund.

Einnig var tilkynnt um krakka upp á þaki Breiðholtsskóla en enginn reyndist vera þar þegar lögregla kom á vettvang.

Klukkan fimm í gær barst síðan tilkynning um veggjakrot á hús í miðbænum og kvartað undan áreiti betlara síðar um kvöldið. Fram kemur í dagbók lögreglu að rætt hafi verið við hann í kjölfarið.

Tilkynnt var um reiðhjólaslys í Garðabæ rétt fyrir átta í gær. Þar féll reiðhjólamaður af hjóli og var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild. Hann reyndist vera með minniháttar eymsli.

Þá bárust lögreglu nokkrar tilkynningar um ónæði og ökumenn sem líklega voru undir áhrifum.