Banda­ríski út­varps­maðurinn Dennis Pra­ger til­kynnti á mánu­dag að hann hefði greinst með CO­VID-19. Við sama til­efni til­kynnti Pra­ger að hann hefði reynt hvað hann gat að smitast af veirunni og tókst það að lokum.

Pra­ger er þekktur fyrir í­halds­samar og hægri­sinnaðar skoðanir sínar og hefur hann talað mjög gegn sótt­varna­að­gerðum vegna heims­far­aldursins. Þá hefur hann gert lítið úr al­var­leika veirunnar og hlotið tals­verða gagn­rýni fyrir að dreifa röngum upp­lýsingum.

Pra­ger heldur úti þætti, Dennis Pra­ger Show, þar sem hann til­kynnti hlust­endum á mánu­dag að hann hefði reynt að smitast af veirunni. Þannig hefði hann faðmað þúsundir ó­kunnugra ein­stak­linga undan­farna mánuði. „Loksins fékk ég veiruna frá ein­hverjum,“ segir hann.

Pra­ger, sem er 73 ára, er ekki bólu­settur gegn veirunni og ætlar hann sér ekki að fá bólu­efni. Vildi hann smitast svo hann gæti myndað náttúru­legt ó­næmi.

Í um­fjöllun Daily Beast er tekið fram að Pra­ger hafi notað lyf eftir að hann greindist með veiruna, til dæmis I­ver­mectin og lyf banda­ríska líf­tækni­fyrir­tækisins Regeneron.

Pra­ger dró sig í hlé nokkrum sinnum í út­sendingunni á meðan hann hóstaði en virðist vera við þokka­lega heilsu. Þáttur hans féll niður mið­viku­dag, fimmtu­dag og föstu­dag í síðustu viku og sagðist Pra­ger hafa verið nokkuð lasinn. Í út­sendingunni á mánu­dag sagði hann að heilsan væri orðin betri.

Í frétt Daily Beast er bent á að sér­fræðingar mæli alls ekki með þeirri leið sem Pra­ger fór, að reyna að smitast af veirunni. Það geti stefnt lífi fólks í hættu og sér­stak­lega þeirra sem við­kvæmir eru fyrir. Mikil­vægt sé að þiggja bólu­setningu gegn veirunni enda getur það dregið veru­lega úr líkum á al­var­legum fylgi­kvillum sýkingarinnar.