Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, á að hafa reynt að borga lögmanni sem hann skuldaði tvær milljónir dollara, með því að gefa honum hest.

Þetta kemur fram í bókinni Servants of the Damned: Giant Law Firms, Donald Trump and the Corruption of Justice eftir David Enrich sem verður gefin út í næstu viku, en The Guardian fjallar um málið.

Atvikinu sem er lýst átti sér stað á tíunda áratug síðustu aldar. Lögmaðurinn sem Trump skuldaði pening á að hafa unnið á fínni lögmannstofu. „Það kom reikningur upp á tvær milljónir dollara og Trump neitaði að borga,“ segir í bók Enrich, en í dag myndi það jafngilda tæplega þrjúhundruð milljónum króna.

„Eftir að hafa beðið í einhvern tíma varð lögmaðurinn óþolinmóður og mætti óboðinn Trump-turninn, og var vísað á skrifstofu Trumps.“ stendur í bókinni. Þar segir að í fyrstu hafi viðskiptajöfurinn verið ánægður að sjá lögmanninn sem var allt annað en sáttur.

„Ég mun ekki borga reikninginn. En í staðinn ætla ég að gefa þér svolítið verðmætara.“ er haft eftir Trump. „Ég á stóðhest.“ Hann er fimm milljón dollara virði“ á hann að hafa sagt og í kjölfarið rétt lögmanninum söluplagg.

Lögmaðurinn á að hafa orðið orðlaus í fyrstu, og síðan á hann að hafa sagt: „Við erum ekki staddir á nítjándu öld. Þú getur ekki borgað mér með hesti.“ Auk þess á hann að hafa hótað því að kæra auðkýfinginn vegna málsins.

Að lokum á Trump að hafa borgað hluta þess sem hann skuldaði.