„Þetta var náttúrulega hryllileg aðkoma,“ segir Adolf Ingi Erlingsson leiðsögumaður sem var meðal þeirra fyrstu sem kom á vettvang banaslyss á Suðurlandi í morgun. Sjö voru í Land Cruiser jeppa sem ók fram af brú við Núpsvötn á tíunda tímanum í morgun. Þrír eru látnir, þar á meðal eitt barn en í bílnum voru breskir ferðamenn.

„Ég var bara á ferðinni með mitt fólk. Rétt áður en ég kem að brúnni þá sé ég blikkandi ljós á undan mér og svo kemur lögreglubíll á fullri ferð fram hjá mér. Þegar ég kem yfir brúnna sé ég tvo lögreglubíla og stoppa til að athuga hvort ég geti hjálpað,“ segir Adolf Ingi. „Við erum bara þrjú þarna, ég og tveir lögreglumenn, til að byrja með og ég enda á því að reyna að fara inn í bílinn til að ná fólkinu út.“ Segir hann það ekki hafa gengið eftir og hafi hann reynt að hlúa að Bretunum. 

Að sögn Adolfs var hluti hópsins kominn út úr bílnum og með meðvitund þó þau væru vönkuð eftir slysið. „Hún var náttúrulega hryllileg aðkoman. Þarna lá maður með tvö lítil börn sitt hvoru megin við sig, þau voru með meðvitund en stórslösuð,“ segir Adolf. Maðurinn var að sögn Adolfs augljóslega í miklu áfalli. „Hann hélt hann væri að deyja og sagðist ekki geta hreyft sig. Maður var bara að reyna að róa hann, gefa honum að drekka og fá hann til að halda sér vakandi.“

Hluti hópsins sat enn fastur inn í bílnum og segir Adolf bílstjórann hafa verið með meðvitund, en setið fastan undir mælaborðinu. „Hann gat voða lítið talað en var með meðvitund og var að reyna að brölta, ég sagði honum að spara kraftana og vera rólegur.“ Aðspurður segir Adolf líklegt að um hafi verið að ræða fjölskyldu, en lögregla hefur ekki getað staðfest þær fregnir. Tildrög slyssins eru enn ókunn, en Adolf segir bílstjórann að öllum líkindum hafa misst stjórn á bílnum. 

Breskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um málið. Á vef breska ríkisútvarpsins er haft eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni yfirlögregluþjón að lögreglu hafi ekki tekist að ræða við hina slösuðu um orsök slyssins.