Tvítug fyrirsæta sem haldið var í gíslingu á Ítalíu í sex daga segist hafa sloppið út haldi með því að láta mannræningjann verða ástfanginn af sér. Saga hinnar bresku Chloe Ayling er nokkuð ótrúleg og vakti hún mikla athygli á í Bretlandi og víðar á síðasta ári. 

Afklædd og troðið í ferðatösku

Ayling starfar sem fyrirsæta í heimalandinu og ferðaðist til Mílanó á Ítalíu í júlí á síðasta ári eftir að hafa verið ráðin í verkefni á fölskum forsendum. Þegar hún kom til Mílanó var eitrað fyrir henni með ketamíni og henni troðið meðvitundarlausri og nakinni ofan í ferðatösku. 

Ræningi Ayling, hinn þrítugi Lukasz Herba, var sakfelldur fyrr í sumar. 

Ayling sagði sögu sína í viðtali við bresku fréttakonuna Victoriu Derbyshire þar sem hún segir frá því hvernig hún samþykkti að deila rúmi með Herba eftir að hafa verið bundin við kommóðu í tvo daga. 

Bað um leyfi til að kyssa fyrirsætuna og vildi samband

Ayling lýsir þessari skelfilegu lífsreynslu í viðtalinu og segir frá því hvernig tilfinningin hefði verið þegar eitrað var fyrir henni, hún afklædd og troðið í ferðatösku þar sem keyrt var með hana nær 200 kílómetra í skotti á bíl. Þegar komið var í afskekktan sveitabæ tilkynnti ræningi hennar Ayling henni að til stæði að selja hana í kynlífsþrælkun nema henni tækist að útvega 300.000 evrur, sem jafngildir tæpum 40 milljónum króna.

Á sama tíma falaðist hann eftir að fá að kyssa hana og spurði hvort hún vildi vera kærastan hans. 

„Ég áttaði mig á því að þetta gæti verið tækifæri mitt til þess að sleppa. Þegar ég sá viðbrögð hann við því sem ég sagði um framtíð okkar varð hann spenntur og vildi ólmur tala um það.“  

Vænd um athyglissýki og efast um sögu hennar

Ayling gerði því í því að spjalla við mannræningjann um lífið, tilveruna og framtíð þeirra saman. Þegar Herba áttaði sig á því að hann myndi ekki fá neitt lausnargjald fyrir ránið keyrði hann hana að breska sendiráðinu í Milan. Gangandi vegfarendur sáu Ayling og Herba á kaffihúsi þar sem þau sátu og hlógu.

Ayling hefur verið gagnrýnd harðlega eftir að hún kom heim til Bretlands og margir efast um sannindi sögu hennar. Þá hefur hún verið sökuð um athyglissýki og að hafa átt þátt í eigin ráni til að stuðla að eigin frama og frægð. Hún svarar þessum sögusögnum í viðtalinu með því að hún hafi þurft að gera allt sem í sínu valdi stóð til þess að fá Herba til þess að verða ástfanginn af sér til þess að sleppa. Þá er vert að nefna að það var niðurstaða dómara að Ayling hefði ekki átt neinn þátt í ráninu, heldur væri fórnarlamb.

Fylgdist með fyrirsætunni á Facebook í tvö ár


Herba, sem er pólskur ríkisborgari, var sakfelldur þann 16. júní síðastliðinn og dæmdur í rúmlega sextán ára fangelsi. Fyrir dómi sagðist hann eingöngu hafa borið hag fyrirsætunnar fyrir brjósti og vildi hjálpa henni að fá fjölmiðlaathygli.

„Ég skil ekki ennþá hver hvati hans var,“ segir Ayling. „Það getur ekki verið bara peningur þar sem hann valdi mig og bætti mér við á Facebook fyrir tveimur árum, það er eins og hann hafi verið að fylgjast með mér svo lengi að það varð að þráhyggju.“

Við komuna heim til Bretlands á síðasta ári talaði Ayling við blaðamenn fyrir utan heimili sitt. Þar var hún gagnrýnd fyrir klæðnað sinn og fyrir að þykja of glöð. 

„Ég var bara að vera ég sjálf, ég fór til fréttamannanna til að reyna að fá þau til að fara en það virkaði ekki. Fólk bjóst við að sjá mig grátandi og að ég lokaði mig frá umheiminum. Ég hefði getað kosið að gera það en ég hugsaði, hvernig hjálpar það mér að jafna mig. Með því að tala um atvikið, með því að vera í kringum fólk, það var mín leið til þess að komast yfir þetta.“