Sáttafundur fór fram fyrir helgi vegna ásakana um einelti formanns Félags grunnskólakennara, Þorgerðar Laufeyjar Diðriksdóttur.

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, hafði frumkvæði að fundinum og hefur samkvæmt tölvupósti tekið forræði til að leiða málið til lykta.

Jens Guðjón Einarsson, varaformaður Félags grunnskólakennara, segist vonast til að fundurinn hafi verið gagnlegur og að sátt sé innan seilingar.

„Mér finnst að umræðan hafi verið á villigötum, hún hefur verið illkvittin og illgjörn. Þorgerður hefur unnið fyrir alla félagsmenn allan sinn stjórnarferil,“ segir Jens Guðjón.

Hann segir eðlilegt að Þorgerður Laufey hafi átt erfitt með að tjá sig um málið, enda þurfi hún að gæta trúnaðar. „Við í stjórninni höfum fengið á okkur gagnrýni fyrir að tjá okkur ekki um málið en trúnaður er trúnaður, þagmælska er dyggð.“

Kosning um nýjan formann í Félagi grunnskólakennara hófst í gær. Þorgerður Laufey, sitjandi formaður, býður sig fram áfram ásamt Mjöll Matthías­dóttur og Pétri V. Georgs­syni. Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari í Síðuskóla á Akureyri, sagði í Fréttablaðinu á laugardag að það væri skelfilegt ef Þorgerður fengi umboð til að leiða félagið áfram. Hún velti fyrir sér hvað yrði um traust foreldra grunnskólabarna ef formaður, uppvís að einelti samkvæmt úttekt óháðrar stofu gagnvart starfsmanni, leiði félagið áfram.

„Hér var ekki verið að rannsaka einelti heldur samskiptavanda,“ segir Jens Guðjón.