Joe Biden Banda­ríkja­for­seti ræddi sím­leiðis við Xi Jin­ping Kína­for­seta í gær en þetta er í fyrsta sinn sem for­setarnir tala formlega saman frá því að Biden tók við em­bætti for­seta þann 20. janúar síðast­liðinn. Að sögn talsmanna þeirra beggja var um gott samtal að ræða.

Mikil spenna hefur verið milli landanna síðast­liðna mánuði, ekki síst vegna Donalds Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seta, sem setti ýmsar hömlur á Kína á kjör­tíma­bili sínu en löndin stóðu í við­skipta­stríði í fyrra. Bæði Xi og Biden leggja nú á­herslu á sterk sam­skipti milli landanna.

Mannréttindamál og COVID-19

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið ræddu for­setarnir um ýmis mál­efni. Meðal þess sem Biden lagði á­herslu á voru mann­réttinda­mál í Xinjiang-héraði þar sem kín­versk yfir­völd hafa verið sökuð um mann­réttinda­brot í garð Ugig­hur-múslima síðast­liðin ár.

Kín­versk yfir­völd hafa þó alfarið neitað slíku.

Þá ræddi Biden fram­göngu yfir­valda í Tævan og sjálf­stjórnar­héraðinu Hong Kong en mikil mót­mæli hafa staðið yfir í Hong Kong vegna af­skipta kín­verskra stjórn­valda, til að mynda með nýjum öryggis­lögum sem banna niður­rif í garð kín­verskra stjórn­valda.

Einnig ræddu for­setarnir stöðu heims­far­aldursins og hvernig hægt væri að bregðast við, en tengsl ríkjanna stirnuðu verulega vegna faraldursins og ummæla Trumps um hlutverk Kína í faraldrinum.

Biden hefur lýst því yfir að hann komi til með að styrkja stöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi eftir síðastliðin fjögur ár sem hafa einkennst af einangrunarstefnu Trumps.