Leitin að belgíska ferðamanninum, sem heitir Björn Debecker, mun hefjast formlega um klukkan fimm í dag. Einhverjir björgunarsveitarmenn eru þó mættir á svæðið og eru byrjaðir að leita mannsins. Veðrið mun spila lykilhlutverk eins og fyrr en ef það leyfir verður notast við dróna og hægt að stunda yfirborðsköfun.

Leitarmenn munu einbeita sér að suðurenda Þingvallavatns í dag og er áætlað að leitin standi fram á tíunda tímann í kvöld. Ekki hefur verið hægt að leita á svæðinu síðan á mánudag vegna vinds. Björgunarsveitarhópar hafa verið boðaðir á svæðið um klukkan fimm í dag en að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, eru einhverjir hópar sem voru lausir fyrr mættir á svæðið.

„Verkefni dagsins eru eiginlega margþætt. Hugmyndin var að vera með báta og fólk gangandi með fram vatninu,“ segir hann. „Ef veður leyfir þá veit ég til þess að einhverjir drónar verða notaðir og ef aðstæður leyfa var búið að tala um að kafarar yrðu að snorkla í vatninu bæði frá Ríkislögreglustjóra og frá Björgunarsveitum.“

Ekki verður kafað í vatninu í dag en til þess að það sé mögulegt þarf að slökkva á Steingrímsstöð. Sá möguleiki verður skoðaður á morgun að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi. Samkvæmt spám verður veðrið í dag og á morgun mun hentugra til leitarinnar en síðustu daga að sögn Davíðs hjá Landsbjörg.

Leitin hófst á laugardagskvöldið þegar kajak og bakpoki Debecker fundust á vatninu. Hann er 41 árs tveggja barna faðir frá Leuven. Yfirgnæfandi líkur eru taldar á því að hann hafi fallið útbyrðis af kajaknum en andlát hans hefur þó ekki verið staðfest. Hann er mikill ferðaáhugamaður og hefur ferðast til rúmlega fimmtíu landa yfir ævina.