Glatt er á hjalla í Hörpu þar sem fólk keppist við að slá Íslandsmet í perlun armbanda. Viðburðurinn þar er á vegum Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur. Viðburðurinn er til styrktar félagsins þar sem armböndin verða seld til fjáröflunar.

Mynd/Aðsend

„Stemningin er ótrúlega góð,“ sagði Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts. „Fólk er farið að streyma að og fyllast í sæti. DJ Sóley var að byrja og Herra Hnetusmjör stígur á stokk klukkan tvö. Markmiðið er að styðja við bakið á ungu fólki sem greinist með krabbamein með því að perla armböndin, en jafnframt stefnum við á að slá Íslandsmetið okkar í perlun armbanda. Við vonum bara að fólk leggi leið niður í Hörpu, taki sér pásu frá góða veðrinu og leggi hönd á perlu.“

Kraftur hefur áður haldið svipaða perlunarviðburði, fyrst árið 2018 og í Hörpu árið 2018. „Við erum ekkert búin að vera að perla í covid, en nú erum við að dusta rykið af perlunum og af okkur sjálfum, og perla til styrktar þessu góða málefni.“

Á síðasta viðburði var núverandi Íslandsmet sett þegar tókst að perla 4.233 armbönd. „Til að slá metið í dag þurfum við að perla 4.234. Við perlum milli 1 og 5. Við munum í rauninni hætta klukkan fimm á og þá kemur í ljós hvort Íslandsmetið hafi verið slegið eða ekki. „

Armböndin eru seld til styrktar ungu fólki sem greinist með krabbamein og aðstandendum þeirra. „Þetta er opið hús fyrir alla landsmenn,“ sagði Hulda. „Allir geta komið í Hörpu og perlað af krafti. Við hvetjum sem flesta til að leggja leið niður í Hörpu til að hjálpa okkur að slá metið. Síðast vorum við með pakkað hús í fjóra tíma og við bindum vonir til að við náum að slá metið í dag. Veðurblíðan er reyndar smá samkeppni þannig að maður veit aldrei.“

Herra Hnetusmjör skemmti perlurunum í Hörpu klukkan tvö.
Mynd/Aðsend