Átta dráttar­bátar vinna nú að því að losa 400 metra langt gáma­skip sem lokar nú Súes­skurðinum við Egypta­land en skipið festist í gær­morgun eftir að mikill vindur gerði það að verkum að á­höfnin gat ekki stýrt skipinu. Enn er ó­ljóst hve­nær hægt verður að losa skipið að sögn yfir­valda á svæðinu.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið er skipið sem um ræðir, Ever Given, um 224 tonn og er eitt stærsta gáma­skip heims. Bern­hard Schulte Ship­mana­gement, BSM, sem sér um tækni­mál Ever Given, greinir frá því að verið sé að rann­saka hvernig skipið festist.

Skipið hefur nú setið fast í suður­hluta skurðarins í rúman sólar­hring en það festist skömmu fyrir klukkan sex í gær­morgun að ís­lenskum tíma. Sam­kvæmt til­kynningu frá BSM er í lagi með alla skip­verja um borð og hafa engar til­kynningar borist um mengun út frá skipinu.