Eyjamenn halda enn í vonina um að þjóðhátíð fari fram seinna á þessu ári.

Njáll Ragnarsson, formaður bæjarráðs Vestmannaeyja, segir stemminguna í bænum einkennilega í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar. Skrítið sé að undirbúningur fyrir Þjóðhátíð hafi verið á lokametrunum en engir gestir væntanlegir.

„Ég sjálfur hef verið að taka hefðbundinn rúnt niður í Herjólfsdal til þess að fylgjast með undirbúningi hátíðarinnar. Á þessum tíma væri húkkaraballið að hefjast,“ sagði Njáll í gærkvöldi.

„Ég veit til þess að einhverjar fjölskyldur og vinir muni halda í þær hefðir sem hafa myndast í kringum Þjóðhátíð og hittast í kjötsúpuveislum og þess háttar um helgina. Það eru hins vegar engir viðburður skipulagðir á vegum ÍBV. Ég hvet bæjarbúa til að gæta að sóttvörnum í hittingum sínum um helgina,“ segir formaðurinn enn fremur.

„Við munum reyna að gera gott úr þessu og horfa á brekkusönginn sem verður streymt á sunnudagskvöldið þó að það komi auðvitað ekki í staðinn fyrir að mæta í Dalinn. Forráðamenn ÍBV sjá um skipulagninguna á Þjóðhátíð og þeir bíða eftir ákvörðun stjórnvalda 13. ágúst næstkomandi og taka þá ákvörðun um framhaldið,“ segir Njáll.