Gísli Þráinsson, formaður flugeldanefndar slysavarnafélagsins Landsbjörg reiknar ekki með neinu öðru en að landsmenn styðji við björgunarsveitir landsins og versli af þeim flugelda, en sala á þeim hófst í dag. Hann viðurkennir að flugeldar séu mengandi, en segir að unnið sé að því að gera þá umhverfisvænni.
„Eftirvæntingin í ár er bara góð. Ég reikna ekki með öðru en að fólk komi til okkar og versli flugelda,“ segir Gísli.
Árið 2022 var viðburðaríkt hjá liðsmönnum Landsbjargar, en eldgos í Meradölum og óveður hefur sýnt okkur enn og aftur hve mikilvæg góð björgunarsveit er fyrir landsmenn. Gísli segir að salan á flugeldum hafi gengið vel í fyrra og vonast hann til þess að það verði það sama upp á teningnum í ár.
„Salan gekk mjög vel í fyrra og það er engin ástæða til þess að halda að það verði eitthvað öðruvísi í ár,“ segir Gísli.
Umræðan undanfarin ár varðandi flugelda hefur einan helst tengst mengandi áhrifum flugelda á umhverfið. Fólk hefur verið hvatt til þess að styðja frekar við björgunarsveitir án þess að kaupa flugelda. Gísli segir að unnið sé að því að minnka áhrif mengunar af völdum flugelda.
Úff mig langar svo að styrkja að björgunarsveitina en þqð er alvet bannað að gera það nema ég sprengi svona mengunar boom boom ljós :/
— stefan.vigfusson@gmail.com (@SVigfusson) December 27, 2022
„Við viðurkennum það að flugeldar menga, eða nánar tiltekið svifryk mengar. Mengunin er í mjög takmarkaðan tíma og yfirleitt ekki þegar vindur blæs. Svifryksmengun var ekki vandamál í fyrra og miðað við veðurspánna í ár þá er ólíklegt að hún verði til vandræða. Eini óvinurinn okkar þar er logn, en það er nú kannski ekki oft á þessum árstíma sem við erum að díla við það,“ segir Davíð.
„Við erum alltaf að reyna að gera flugelda eins umhverfisvæna og hægt er. Við erum til að mynda að minnka plastið í flugeldum, sem hjálpar til við að minnka mengun. Þetta er náttúrulega bruni af flugeldum, þannig við svo sem náum aldrei að gera þá umhverfisvæna. En við erum að taka út vörur sem er mikið plast í og breyta umbúðum til þess að reyna gera þetta umhverfisvænna,“ segir Gísli.
Sterk flugeldahefð hjá Íslendingum
Gísli segir að Landsbjörg reyni alltaf að bæta einhverjum nýjungum í flugelda flóruna hér á landi, enda eru Íslendingar kröfuharðir þegar kemur að flugeldum.
„Það er sterk hefð fyrir því að skjóta upp flugeldum um áramótin og það virðist nú ekki vera lát á því,“ segir Gísli.
Aðspurður hvar mesta salan af flugeldum sé, segir Gísli að salan sé mest þar sem fólkið er flest.
„Við erum með um hundrað sölustaði á öllu landinu. Hérna á höfuðborgarsvæðinu er náttúrulega mesta salan, það gefur auga leið enda búa langflestir hér,“ segir Gísli.
Eins og fyrr segir hófst sala flugelda í dag. Davíð segir að oft sé ekki mikið að gera fyrstu dagana. Mesta salan er síðustu tvo daga ársins.
„Helmingurinn af sölunni er á gamlársdag og helmingur af hinum helmingnum er þrítugasta desember. Þannig dagurinn í dag er líklega sá allra rólegasti í flugeldasölunni,“ segir Gísli.