„Þegar þú ferð að kynna þér nánar hvað er að baki þessari virkjun, peningarnir á bakvið þetta, þá sérðu að það er ekkert verið að hugsa um að orkuvæða heimili fólks, heldur er bara verið að reyna að græða peninga,“ segir Dr. Steve Carver, prófessor við Háskólann í Leeds í Bretlandi, sem kominn er hingað til lands til þess að kortleggja óbyggð og ósnortin víðerni.
Carver kom til landsins fyrir tilstilli náttúruverndarsamtakanna Ófeigu í kjölfar framkvæmda við Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum, en Carver mun næstu mánuði vinna að því að meta og kortleggja víðerni frá Hornströndum að Steingrímsfjarðarheiði. Undirbúningur við kortlagninguna hefur staðið yfir í um hálft ár og stefnir Carver á að ljúka vinnu sinni í október.
„Í svona vinnu eru notuð kort, gervihnattamyndir, GPS og fleiri tæki. En að koma hingað og kynnast svæðinu er ómetanlegt,“ segir Carver í samtali við blaðamann, sem fékk að slást með honum í för að Hvalá.

Hvergi annars staðar eins hátt hlutfall villtra víðerna
Carver bendir á að Ísland eigi tæplega 43 prósent af allra villtustu víðernum Evrópu og að svo hátt hlutfall sé hvergi annars staðar að finna í álfunni. „Þetta eru mjög áhugaverðar tölur og Ísland hefur þá ábyrgð að vernda sín víðerni. Ekki bara fyrir Ísland, heldur fyrir heiminn allan,“ segir hann og bætir við að peningar megi ekki alltaf trompa náttúruvernd.
„Í grunninn snýst þetta bara um peninga og ég er bara alls ekki sammála þeirri leið. Ef það er verið að nota landið og eyðileggja það í þeim tilgangi að bæta líf fólks, þá er hægt að sýna því skilning um að einhverju marki, en mér finnst ekki í lagi að eyðileggja landið til þess eins að græða meiri peninga. Það eru aðrar leiðir en að eyðileggja þessi víðerni, og ef mér tekst að finna betri lausnir en þessa þá er ég glaður,“ segir hann. „Um leið og þú hefur eyðilagt víðerni sem þessi – er ekki aftur snúið.“
Lífríkinu ógnað
Snæbjörn Guðmundsson, stjórnarmaður Ófeigar, tekur undir orð Carvers. „Náttúruáhrifin yrðu einfaldlega mjög slæm. Það væri verið að taka ár úr farvegi sínum, það væri verið að taka rennsli mikilfenglegra fossa og fossaraða, og væri verið að ræra til heilu árnar úr farvegum sínum yfir í vatnasvið annarra áa,“ segir Snæbjörn.
„Víðernin eru þannig að gildi þeirra felst í hversu ósnortin þau eru, felst í náttúruminjunum en líka í sögu- og fornminjum. Og eftir því sem þau eru stærri þeim mun stærri heild eru þau fyrir lífríðikið á svæðinu og fyrri vistkerfi svæðanna. Ófeigsfjarðarheiði til dæmis drekkur í sig vatn, snjó og úrkomu sem fellur á heiðina, og lífríkið við sjávarströndina þar þrífst á þessu vatni og næringarefnunum sem það flytur.“

Orkan fari í gagnaver
Sif Konráðsdóttir, stjórnarformaður Ófeigar, segir að vel sé hægt að finna aðrar leiðir til þess að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum.
„En það er bara enginn að því, því það er enginn peningur í því. Þeir sem stjórna umræðunni vilja þessa virkjun, enda græða þeir ekkert á því að þetta vandamál sé leyst með öðrum hætti. Einfaldasta lausnin er varaaflstöð á sunnanverðum Vestfjörðum, til dæmis eins og sú sem er í Bolungarvík, og hringtenging innan suður Vestfjarða,“ segir Sif, en þau bæði gagnrýna stefnuleysi stjórnvalda í þessum málum. Engin orkustefna sé fyrir hendi og engin áform séu um að setja slíka stefnu. Þá hafi HS Orka, fyrir hönd VesturVerks, aldrei upplýst um hvað verði um orkuna, en þau segjast bæði hafa heimildir fyrir því að hana eigi að nota í gagnaver – líklega á Reykjanesi.

Ferðina að Hvalá nýttu Carver, Snæbjörn og Sif einnig í að leita að svokölluðum trjáholum eftir að hafa fengið ábendingu um að þar kynnu að vera steingervingar. Það reyndist aldeilis vera raunin því þau fundu alls þrjár tjáholur og tíu milljón ára steingerðar viðarleifar í holunum.
„Þetta þýðir bara það að núna verða stjórnvöld að bregðast við,“ sagði Snæbjörn með steingervinginn í höndum sér, og benti á að samkvæmt náttúruverndarlögum má ekki raska jarðminjum.
Fréttablaðið.is hafði samband við Náttúrufræðistofnun í gær og fékk þær upplýsingar að umhverfisráðuneytinu og umhverfisstofnun hafi verið gert viðvart. Forstjóri stofnunarinnar, Jón Gunnar Ottósson, sagði í samtali við blaðið að skoða þurfi svæðið og að líkur séu á að VesturVerk þurfi eitthvað að breyta áformum sínum. Fyrst þurfi þó að rannsaka svæðið sem að líkindum verði gert hið fyrsta.

Hvað felst í Hvalárvirkjun?
VesturVerk, sem er í eigu HS Orku, hefur hafið framkvæmdir við Hvalá í Ófeigsfirði, þar sem fyrirhugað er að virkja Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarárá. Hugmyndir um virkjun Hvalár hafa lengi verið til umræðu, en þær voru fyrst ræddar árið 1974 – eða fyrir 45 árum.
Áformin gengu hægt í fyrstu en boltinn fór að rúlla árið 2008, eftir að samningar náðust við landeigendur um virkjunarleyfi. Vatnsréttindi má ekki selja, aðeins leigja, og samkvæmt samningnum fá landeigendur um tvö prósent af söluverði raforkunnar og fara leigugreiðslurnar stighækkandi milli ára, þannig að árlegar greiðslur geta farið upp í allt að 160 milljónir króna á ári.
Nokkrum árum síðar, eða árið 2013, var þingsályktunartillaga með Hvalárvirkjun í nýtingarflokki Rammaáætlunar samþykkt. Skipulagsstofnun komst síðan árið 2017 að þeirri niðurstöðu að áhrif Hvalárvirkjunar hefði verulega neikvæð áhrif á ásýnd, landslag og víðerni.

„Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði. Inngrip í vatnafar svæðisins verður mikið og mun rennsli í Hvalá, Rjúkanda og Eyvindarfjarðará minnka verulega og hafa áhrif á ásýnd vatnsfallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalárgljúfrum, fossaraðar í Eyvindarfjarðará, Hvalárfoss og Rjúkandafoss,“ segir meðal annars í skýrslunni.
Þrátt fyrir neikvæða skýrslu óskuðu VesturVerk eftir framkvæmdaleyfi haustið 2018 og fengu það í gegn af sveitarstjórn Árneshrepps í júní síðastliðnum. Framkvæmdir hófust síðan í júní á þessu ári.

Hvað hefur gerst?
Sem fyrr segir hófust framkvæmdir í júní síðastliðnum. Um er að ræða fyrsta fasa sem eru vegaframkvæmdir í Ingólfsfirði. Skiptar skoðanir hafa verið á ágæti þessara framkvæmda og virkjunarinnar og segja má að þetta litla samfélag á Ströndum hafi klofnað í kjölfarið. Ásakanir hafa gengið á víxl, kærur hafa verið lagðar fram og nýr stjórnmálaflokkur er í bígerð vegna málsins, þar sem markmiðið er að afstýra þessum áformum. Þá hefur Minjastofnun bæði stöðvað framkvæmdirnar og gefið grænt ljós á þær að nýju og fólk hefur lagst fyrir framan vinnutækin og þannig tekið málin í sínar hendur.
„Og ég skal gera þetta aftur og aftur og hvaða tíma dags sem er,“ sagði Elías Svavar Kristinsson, íbúi á svæðinu, þegar blaðamaður rakst á hann um síðastliðna helgi. „Sá sem sat við stýri gröfunnar var reyndar afskaplega kurteis og ákvað bara að hætta að vinna þegar ég lagðist þarna, þannig að ég var örlítið æstari en hann. En þetta hreinlega verðum við að stöðva og ef þetta er það sem þarf til, þá geri ég það,“ bætti Elías við.