„Þegar þú ferð að kynna þér nánar hvað er að baki þessari virkjun, peningarnir á bak­við þetta, þá sérðu að það er ekkert verið að hugsa um að orku­væða heimili fólks, heldur er bara verið að reyna að græða peninga,“ segir Dr. Ste­ve Car­ver, prófessor við Há­skólann í Leeds í Bret­landi, sem kominn er hingað til lands til þess að kort­leggja ó­byggð og ó­snortin víð­erni.

Car­ver kom til landsins fyrir til­stilli náttúru­verndar­sam­takanna Ó­feigu í kjöl­far fram­kvæmda við Hvalár­virkjun í Ó­feigs­firði á Ströndum, en Car­ver mun næstu mánuði vinna að því að meta og kort­leggja víð­erni frá Horn­ströndum að Stein­gríms­fjarðar­heiði. Undir­búningur við kort­lagninguna hefur staðið yfir í um hálft ár og stefnir Car­ver á að ljúka vinnu sinni í októ­ber.

„Í svona vinnu eru notuð kort, gervi­hnatta­myndir, GPS og fleiri tæki. En að koma hingað og kynnast svæðinu er ó­metan­legt,“ segir Car­ver í sam­tali við blaða­mann, sem fékk að slást með honum í för að Hva­lá.

Steve Carver, prófessor við Háskólann í Leeds, hélt í nokkurra daga göngutúr um Strandir eftir að hafa tekið út Hvalá.
Fréttablaðið/Garpur

Hvergi annars staðar eins hátt hlut­fall villtra víð­erna

Car­ver bendir á að Ís­land eigi tæp­lega 43 prósent af allra villtustu víð­ernum Evrópu og að svo hátt hlut­fall sé hvergi annars staðar að finna í álfunni. „Þetta eru mjög á­huga­verðar tölur og Ís­land hefur þá á­byrgð að vernda sín víð­erni. Ekki bara fyrir Ís­land, heldur fyrir heiminn allan,“ segir hann og bætir við að peningar megi ekki alltaf trompa náttúru­vernd.

„Í grunninn snýst þetta bara um peninga og ég er bara alls ekki sam­mála þeirri leið. Ef það er verið að nota landið og eyði­leggja það í þeim til­gangi að bæta líf fólks, þá er hægt að sýna því skilning um að ein­hverju marki, en mér finnst ekki í lagi að eyði­leggja landið til þess eins að græða meiri peninga. Það eru aðrar leiðir en að eyði­leggja þessi víð­erni, og ef mér tekst að finna betri lausnir en þessa þá er ég glaður,“ segir hann. „Um leið og þú hefur eyði­lagt víð­erni sem þessi – er ekki aftur snúið.“

Líf­ríkinu ógnað

Snæ­björn Guð­munds­son, stjórnar­maður Ó­feigar, tekur undir orð Car­vers. „Náttúru­á­hrifin yrðu ein­fald­lega mjög slæm. Það væri verið að taka ár úr far­vegi sínum, það væri verið að taka rennsli mikil­feng­legra fossa og fossa­raða, og væri verið að ræra til heilu árnar úr far­vegum sínum yfir í vatna­svið annarra áa,“ segir Snæ­björn.

„Víð­ernin eru þannig að gildi þeirra felst í hversu ó­snortin þau eru, felst í náttúru­minjunum en líka í sögu- og forn­minjum. Og eftir því sem þau eru stærri þeim mun stærri heild eru þau fyrir líf­ríðikið á svæðinu og fyrri vist­kerfi svæðanna. Ó­feigs­fjarðar­heiði til dæmis drekkur í sig vatn, snjó og úr­komu sem fellur á heiðina, og líf­ríkið við sjávar­ströndina þar þrífst á þessu vatni og næringar­efnunum sem það flytur.“

Vegaframkvæmdir eru þegar hafnar á svæðinu.
Fréttablaðið/Garpur

Orkan fari í gagna­ver

Sif Kon­ráðs­dóttir, stjórnar­for­maður Ó­feigar, segir að vel sé hægt að finna aðrar leiðir til þess að bæta raf­orku­öryggi á Vest­fjörðum.

„En það er bara enginn að því, því það er enginn peningur í því. Þeir sem stjórna um­ræðunni vilja þessa virkjun, enda græða þeir ekkert á því að þetta vanda­mál sé leyst með öðrum hætti. Ein­faldasta lausnin er vara­afl­stöð á sunnan­verðum Vest­fjörðum, til dæmis eins og sú sem er í Bolungar­vík, og hring­tenging innan suður Vest­fjarða,“ segir Sif, en þau bæði gagn­rýna stefnu­leysi stjórn­valda í þessum málum. Engin orku­stefna sé fyrir hendi og engin á­form séu um að setja slíka stefnu. Þá hafi HS Orka, fyrir hönd Vestur­Verks, aldrei upp­lýst um hvað verði um orkuna, en þau segjast bæði hafa heimildir fyrir því að hana eigi að nota í gagna­ver – lík­lega á Reykja­nesi.

Sif Konráðsdóttir gagnrýnir stefnuleysi stjórnvalda og bendir á að engin orkustefna á til.
Fréttablaðið/Garpur

Ferðina að Hva­lá nýttu Car­ver, Snæ­björn og Sif einnig í að leita að svo­kölluðum trjá­holum eftir að hafa fengið á­bendingu um að þar kynnu að vera stein­gervingar. Það reyndist al­deilis vera raunin því þau fundu alls þrjár tjá­holur og tíu milljón ára stein­gerðar viðar­leifar í holunum.

„Þetta þýðir bara það að núna verða stjórn­völd að bregðast við,“ sagði Snæ­björn með stein­gervinginn í höndum sér, og benti á að sam­kvæmt náttúru­verndar­lögum má ekki raska jarð­minjum.

Frétta­blaðið.is hafði sam­band við Náttúru­fræði­stofnun í gær og fékk þær upp­lýsingar að um­hverfis­ráðu­neytinu og um­hverfis­stofnun hafi verið gert við­vart. For­stjóri stofnunarinnar, Jón Gunnar Ottós­son, sagði í sam­tali við blaðið að skoða þurfi svæðið og að líkur séu á að Vestur­Verk þurfi eitt­hvað að breyta á­formum sínum. Fyrst þurfi þó að rann­saka svæðið sem að líkindum verði gert hið fyrsta.

Svokallaðar trjáholur fundust á vinnusvæði Hvalárvirkjunar. Þær gætu sett strik í reikninginn fyrir framkvæmdaraðila því inni í þeim var að finna tíu milljón ára steingervinga.
Fréttablaðið/Garpur

Hvað felst í Hvalár­virkjun?
Vestur­Verk, sem er í eigu HS Orku, hefur hafið fram­kvæmdir við Hva­lá í Ó­feigs­firði, þar sem fyrir­hugað er að virkja Hva­lá, Rjúkanda og Ey­vindar­fjar­árá. Hug­myndir um virkjun Hvalár hafa lengi verið til um­ræðu, en þær voru fyrst ræddar árið 1974 – eða fyrir 45 árum.

Á­formin gengu hægt í fyrstu en boltinn fór að rúlla árið 2008, eftir að samningar náðust við land­eig­endur um virkjunar­leyfi. Vatns­réttindi má ekki selja, að­eins leigja, og sam­kvæmt samningnum fá land­eig­endur um tvö prósent af sölu­verði raf­orkunnar og fara leigu­greiðslurnar stig­hækkandi milli ára, þannig að ár­legar greiðslur geta farið upp í allt að 160 milljónir króna á ári.

Nokkrum árum síðar, eða árið 2013, var þings­á­lyktunar­til­laga með Hvalár­virkjun í nýtingar­flokki Ramma­á­ætlunar sam­þykkt. Skipu­lags­stofnun komst síðan árið 2017 að þeirri niður­stöðu að á­hrif Hvalár­virkjunar hefði veru­lega nei­kvæð á­hrif á á­sýnd, lands­lag og víð­erni.

Hvalárfoss er vatnsmesti foss Vestfjarða.

„Skipu­lags­stofnun telur að helstu um­hverfis­á­hrif Hvalár­virkjunar felist í um­fangs­mikilli skerðingu ó­byggðs víð­ernis og breyttri á­sýnd fyrir­hugaðs fram­kvæmda­svæðis og lands­lagi þess, þar sem náttúru­legt um­hverfi verður mann­gert á stóru svæði. Inn­grip í vatna­far svæðisins verður mikið og mun rennsli í Hva­lá, Rjúkanda og Ey­vindar­fjarðar­á minnka veru­lega og hafa á­hrif á á­sýnd vatns­fallanna, meðal annars fossins Drynjanda í Hvalár­gljúfrum, fossa­raðar í Ey­vindar­fjarðar­á, Hvalár­foss og Rjúkanda­foss,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Þrátt fyrir nei­kvæða skýrslu óskuðu Vestur­Verk eftir fram­kvæmda­leyfi haustið 2018 og fengu það í gegn af sveitar­stjórn Ár­nes­hrepps í júní síðast­liðnum. Fram­kvæmdir hófust síðan í júní á þessu ári.

Elías Kristinn Svavarsson frá Dröngum lagðist fyrir framan gröfu á dögunum - og segist ekki hika við að gera það aftur.
Fréttablaðið/Garpur

Hvað hefur gerst?

Sem fyrr segir hófust fram­kvæmdir í júní síðast­liðnum. Um er að ræða fyrsta fasa sem eru vega­fram­kvæmdir í Ingólfs­firði. Skiptar skoðanir hafa verið á á­gæti þessara fram­kvæmda og virkjunarinnar og segja má að þetta litla sam­fé­lag á Ströndum hafi klofnað í kjöl­farið. Á­sakanir hafa gengið á víxl, kærur hafa verið lagðar fram og nýr stjórn­mála­flokkur er í bí­gerð vegna málsins, þar sem mark­miðið er að af­stýra þessum á­formum. Þá hefur Minja­stofnun bæði stöðvað fram­kvæmdirnar og gefið grænt ljós á þær að nýju og fólk hefur lagst fyrir framan vinnu­tækin og þannig tekið málin í sínar hendur.

„Og ég skal gera þetta aftur og aftur og hvaða tíma dags sem er,“ sagði Elías Svavar Kristins­son, íbúi á svæðinu, þegar blaða­maður rakst á hann um síðast­liðna helgi. „Sá sem sat við stýri gröfunnar var reyndar af­skap­lega kurteis og á­kvað bara að hætta að vinna þegar ég lagðist þarna, þannig að ég var ör­lítið æstari en hann. En þetta hrein­lega verðum við að stöðva og ef þetta er það sem þarf til, þá geri ég það,“ bætti Elías við.