Ólgunni í ísraelskum stjórnmálum er langt í frá lokið. Stjórnarleiðtogarnir Benjamin Netanyahu forsætisráðherra og Benny Gantz varnarmálaráðherra, leita nú leiða til að koma í veg fyrir fjórðu þingkosningarnar á einu og hálfu ári.

Kosningar í apríl og september árið 2019 og mars 2020 sýndu allar svipaðar niðurstöður og eftir mikið þrátefli var látið reyna á breiða stjórn Likud og Bláhvíta bandalagsins. En mikil kergja var á milli flokkanna og þá sérstaklega formannanna.

Samkvæmt samkomulagi á Gantz að taka við sem forsætisráðherra eftir tvö ár og í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir fjárlögum til tveggja ára. Netanyahu hefur þegar bakkað með þetta og segir ógerning að gera fjárlög til meira en eins árs í heimsfaraldri.

Kergja er kominn upp á stjórnarheimilinu og leiðtogarnir hafa sammælst um að fresta setningu fjárlaga. En samkvæmt ísraelskum lögum á að rjúfa þing og blása til kosninga séu fjárlög ekki tilbúin 25. ágúst.

Ofan á þetta geisa hörð mótmæli í Jerúsalem, til að mynda fyrir framan embættisbústað Netanyahu. Er hann sakaður um að hafa ekki gripið til nógu harkalegra aðgerða til að stemma stigu við heimsfaraldrinum, efnahagurinn fer hratt versnandi og atvinnuleysi eykst.

Þá blöskrar mörgum að Netanyahu sitji á meðan réttarhöld yfir honum standa, en forsætisráðherrann er meðal annars ákærður fyrir mútur og spillingu í fyrri störfum sínum.