Sautján fulltrúar bæði Repúblikana og Demókrata ætla að hittast í dag í Washington til að reyna að komast að samkomulagi um landamæraeftirlit til að komast hjá alríkislokunum í annað sinn á þessu ári.

Ágreiningur ríkir helst um varðhald ólöglegra innflytjenda og fjármagn í vegg forseta Bandaríkjanna sem hann, eins og kunnugt er, vill reisa við landamæri Bandaríkjanna við Mexíkó. Veggurinn var eitt helsta kosningaloforð Trump í kosningabaráttu hans árið 2016.

Bandaríska þingið hefur þar til næsta föstudags til að samþykkja ný fjárlög, en þau sem eru í gildi núna renna út næsta föstudag. Ef ekki næst að semja um nýju fjárlög í bæði fulltrúadeildinni og öldungadeildinni, og þau undirrituð af forsetanum, mun verða af öðrum lokunum alríkisstofnanna í Bandaríkjunum næsta laugardag.

Fundurinn er haldinn aðeins nokkrum klukkustundum áður en Trump heldur fjöldafund til stuðnings veggnum í bænum El Paso í Texas.

Trump birti færslur á Twitter í dag þar sem hann sagði kröfur Demókrata brjálæðislegar og að „reiðir“ Demókratar þyrfti að „slaka á og skemmta sér“. Sjá má færslunar hér að neðan. 

Trump áætlar að senda um 3.700 hermenn að landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó í þessum mánuði til að auka öryggiseftirlit. Fyrir eru að minnsta kosti tvö þúsund hermenn þar. Ríkisstjórar Kaliforníu og Nýju-Mexíkó hafa á sama tíma afturkallað landgönguliða sína frá landamærunum.

Lengstu lokanir í sögu Bandaríkjanna

Alríkislokanir sem hófust í kringum síðustu jól voru þær lengstu í sögu Bandaríkjanna. Þær vörðu í 35 daga. Þúsundir opinberra starfsmanna voru skikkaðir í ólaunað leyfi auk þess sem margir sem vinna við flugmálastjórn, á spítölum og lögreglumenn unnu án launa.

Trump samþykkti að borga starfsmönnum laun eftir á en margir haf enn ekki fengið greitt. Talið er að kostnaður ríkisins vegna alríkislokanna telji á 11 milljörðum dala. 

Greint er frá á BBC.