Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að veita um 900 milljónir króna í styrki til orkuskipta á þessu ári.

Þetta er hæsta úthlutun til verkefna í orkuskiptum hingað til. Samtals fengu 137 verkefni styrk og eru styrkþegar í öllum landshlutum.

Guðlaugur Þór segir hvetjandi að sjá mikinn áhuga á orkuskiptum. Áhugi fjárfesta og frumkvöðla sé mikill. Þeir leggi til meirihluta fjárins til verkefna á móti sjóðnum.

Sjóðurinn veitir nú í fyrsta sinn umtalsverð styrkvilyrði til framleiðslu rafeldsneytis og nýtingar þess í stærri samgöngu- og flutningstækjum.

Útgerðarfélag Reykjavíkur hyggst breyta vinnsluskipinu Guðmundi í Nesi RE13 þannig að það geti brennt metanóli að talsverðum hluta.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Þá styrkir sjóðurinn notkun á vetni í stórum flutningstækjum á landi með styrkveitingum til Clara Arctic Energy ehf. og Vetnis ehf. sem stuðla meðal annars að vetnisvæðingu flutningstækja hjá Eimskip og Samskipum.

Einnig er áhersla á rafvæðingu hafna og orkuskipti í fiskiskipum, meðal annars breytingu fiskiskipa þannig að þau gangi fyrir metanóli, sem hægt er að framleiða með grænni raforku. Þar má sérstaklega nefna verkefni Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem hyggst breyta vinnsluskipinu Guðmundi í Nesi RE13 þannig að það geti brennt metanóli að talsverðum hluta.

„Þegar grænbókin kom út í mars síðastliðnum var staðan sú að ekki var ljóst hvaða rafeldsneyti yrði ofan á þegar kemur að skipum og engin teikn á lofti um hreyfingar í þessum efnum,“ segir Guðlaugur Þór. „Hlutirnir gerast hratt og það er alveg ljóst að hraðinn mun aukast á komandi árum.“