Á kynningarfundi um uppbyggingu íbúða sem haldinn var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í gær kynnti borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, áform um framtíðarbyggingarsvæði og áherslur varðandi borgarhönnunarstefnu.

Í fyrra fjölgaði Reykvíkingum um tæplega þrjú þúsund sem er mesta fjölgun á einu ári í sögu borgarinnar.

Rætt var um að skapa fjölbreyttan og sveigjanlegan húsnæðismarkað sem myndi tryggja öllum íbúum borgarinnar þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði og var áhersla lögð á þéttingu byggðar.

Dagur B. Eggertsson sagði hins vegar að það væru vaxtaákvarðanir Seðlabankans sem skiptu öllu máli og skýrðu alla þessa þenslu og kólnun sem sést á fasteignamarkaði. Á sama tíma þyrfti að leita að stefnu í húsnæðismálum sem skýrðist meira af jafnvægi frekar en sveiflum. „Við getum ekki alltaf verið að stíga svona rosalega á bensíngjöfina og svo rosalega á bremsuna,“ sagði Dagur.

Jan Vapaavuori, fyrrverandi borgarstjóri Helsinki og húsnæðismálaráðherra Finnlands, var einn af ræðumönnum fundarins og kynnti í stuttu máli húsnæðisstefnu Finna. Jan sagði Helsinki vera gott dæmi um jafnvægi þegar kæmi að húsnæðismálum og benti á nauðsyn þess að viðhalda stöðugleika þegar kæmi að bæði markaðsfrjálshyggju og reglugerð stjórnvalda.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda.

„Ef eftirspurn eykst umfram framboð er tilhneiging hjá markaðnum til að hagnast á því ástandi og í Helsinki voru áætlanir um það að byggja mikið af litlum íbúðum til að mæta þeirri eftirspurn. Aftur á móti vildum við ekki að miðbærinn myndi einungis bjóða upp á smærri íbúðir og gripu stjórnvöld þar með inn í,“ sagði Jan.

Hann bætti við að til að sporna við aðskilnaði á húsnæðismarkaðnum samþykkti borgarstjórn Helsinki reglugerð sem tryggði að 25 prósent af öllum nýjum íbúðum í hverju einasta hverfi borgarinnar skyldu vera tileinkuð félagslegum íbúðum.

Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Samtaka leigjenda, spurði, í tengslum við stefnu Reykjavíkurborgar um fjölbreytileika, fyrir hvern væri verið að byggja.

„Á þessu ári hefur rúmlega helmingur allra íbúða farið til fjárfesta og þeirra sem eiga íbúðir fyrir, það þýðir að einungis minnihlutinn er að ná að kaupa þetta húsnæði sem heimili. Það er ljóst að verktakar og fjárfestar eru að maka krókinn í meira mæli en áður þekktist og allt undir formerkjum meirihlutans um að útvega hagkvæmt og ódýrt húsnæði fyrir viðkvæma hópa borgarinnar,“ sagði Guðmundur.