Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út um klukkan eitt í nótt eftir að rúða var brotin í húsi í Fossvoginum og reyksprengju kastað inn. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu voru íbúar heima þegar sprengjunni var kastað inn en sem betur fer varð þeim ekki meint af.
Þá var slökkvilið kallað út um svipað leyti vegna tilraunar til að kasta eldsprengju í hús í Hafnarfirði. Að sögn varðstjóra var aðstoð slökkviliðsins afturkölluð þar sem sprengjan dreif ekki að húsinu.
Óvíst er hvort málin tengist átökum hópa í kjölfar hnífaárásar á skemmtistaðnum Bankastræti Club síðastliðið fimmtudagskvöld.
Greint hefur verið frá því að hótanir hafi gengið manna á milli og hefur lögregla til rannsóknar hugsanlegar hefndaraðgerðir þar sem rúður hafa verið brotnar og bensínsprengjum verið kastað inn í hús.