Tæplega 15 þúsund manns taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu sem fer fram í 36. sinn í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.

Þegar skráningarhátíð hlaupsins lauk í gær höfðu 14.591 skráð sig til þátttöku. Þar af ætluðu um 1350 að taka maraþon, rúmlega 2900 ætluðu að hlaupa hálft maraþon, rúmlega sjö þúsund manns ætla að taka þátt í 10 km hlaupinu og um 2400 eru skráðir í 3 km skemmtiskokkið.

Það hafa aldrei áður verið svona margir skráðir til þáttöku í 10 km hlaupinu og 3 km skemmtiskokkinu. Það verður hægt að skrá sig í bæði 3 km og 600 m skemmtiskokk í Menntaskólanum í Reykjavík í dag, þannig að þátttakendum gæti enn fjölgað.

Bæði hlauparar og áhorfendur eru beðnir um að mæta tímanlega í Lækjargötu og hafa í huga að það tekur lengri tíma að komast vegan götulokana og fólksfjöldans.

Áheitasöfnunin er sögð ganga frábærlega, en þegar hefur safnast 15% hærri upphæð en á sama tíma í fyrra. Heildarupphæð áheita nálgast nú 150 milljónir, svo metið frá því í fyrra, sem var rétt tæplega 160 milljónir, gæti verið brotið, því áheitasöfnunin lokar ekki fyrr en á miðnætti á mánudag.