„Ég er nokkuð viss um að við séum hataðasta hljóm­sveit Ís­lands enda höfum við þurft að kljást við ó­eðli­lega mikið mót­læti á okkar ferli,“ segir með­limur Reykja­víkur­dætra, Salka Vals­dóttir, í sam­tali við Frétta­blaðið. Um­mæli sem Anna Svava Knúts­dóttir lét falla í upp­hitun fyrir Björn Braga Djöfulsins eru nýjasta dæmið um slíkt mót­læti.

Anna Svava sagði á uppi­standinu að enga góða kven­rappara væri að finna á Ís­landi. Hún líkti Reykja­víkur­dætrum því næst við leir­lista­verk sem barn kemur með heim úr skólanum sem öllum verði að þykjast finnast vera frá­bært. Í kjöl­far þessara um­mæla á salurinn að hafa sprungið úr hlátri.

Krefst hug­rekki að tala illa um kven­rappara

„Þetta er auð­vitað ekki í fyrsta skipti sem við heyrum eitt­hvað svona,“ segir Katrín Helga Andrés­dóttir, með­limur hljóm­sveitarinnar. Katrín og Salka sam­mælast um það að á­líka orð­ræða hafi fylgt hljóm­sveitinni nánast frá því hún var stofnuð. „Að þora meðan aðrir þegja hefur alltaf verið á­berandi í um­ræðunni um okkur, eins og það þurfi mikið hug­rekki til að tala illa um hljóm­sveitina.“

„Við fengum snemma það orð­spor að hafa fengið að vera stikk­frí í um­ræðu um tón­list vegna þess að við vorum nánast einu stelpurnar í senunni.“ Það hafi hins vegar aldrei heyrt til undan­tekninga að Reykja­víkur­dætur hafi sætt gagn­rýni. „Það er enginn að þykjast fíla okkur,“ segir Katrín glettin.

Katrín Helga Andrésdóttir og Salka Valsdóttir eru orðnar þreyttar á eitraðri umræðu.
Mynd/Berglaug

Ó­heflað skot­leyfi á kven­kyns rappara

„Það er í raun mun ó­al­gengara að fólk þori að vera að­dá­endur hljóm­sveitarinnar opin­ber­lega,“ bætir Salka við. „Það urðu sér­stök skil í um­ræðunni þegar MC Gauti tísti um okkur fyrir sirka fjórum árum.“ Rapparinn Gaut Þeyr Más­son sagði þá að hljóm­sveitin hafi verið góð hug­mynd sem gekk ekki upp. Síðan þá hafi ríkt nánast ó­heflað skot­leyfi á hljóm­sveitina að mati Sölku.

Reykja­víkur­dætur unnu ný­verið al­þjóð­leg verð­laun sem besta upp­rennandi hip hop hljóm­sveit Evrópu en þær hafa hlotið fjölda annarra verð­launa er­lendis og hlotið ein­róma lof gagn­rýn­enda. „Óli Palli hafði orð á því, í út­varps­þættinum Rokk­landi, að honum þætti með ó­trú­legt að af öllum hljóm­sveitum á Ís­landi hefði Reykja­víkur­dætur unnið nýjustu verð­launin okkar,“ segir Salka. Það hafi verið lögð ofur­á­hersla á að valið væri með ó­líkindum.

Lög­reglu­þjónn sagði hljóm­sveitina vera aga­lega

Reykja­víkur­dæturnar segjast allar hafa lent í ó­trú­legri fram­komu í sinn garð frá því að þær stigu fyrst í sviðs­ljósið. „Það var á tíma­bili þannig að meira að segja vinum for­eldra minna fannst eðli­legt að spyrja hvort að ég væri ekki í dóna­hljóm­sveitinni og ó­kunnugir lýstu því fyrir mér að þeir hafi þurft að halda fyrir eyrun á tón­leikunum okkar,“ segir Katrín.

Salka segir þetta við­horf hafa kristallast í fram­komu lög­reglu­manns sem stöðvaði hana fyrir að vera í símanum við stýrið. „Ég sat í aftursætinu í lög­reglu­bílnum, sem er ein mest ber­skjaldandi staða til að vera í, og honum þótti við­eig­andi að segja mér að þrátt fyrir að ég væri með á­gætt flæði væru margar í hljóm­sveitinni minni alveg aga­legar.“

Salka upp­lifði ekki að hún gæti and­mælt lög­reglu­þjóninum. „Þannig ég þurfti bara að sitja undir því að lög­reglu­maður talaði niður til vin­kvenna minna og hljóm­sveitar minnar á meðan ég kinkaði kolli í aftursætinu.“

Hljómsveitin á tónlistarhátíð í Sviss

Inni­lega ó­vel­komnar á Ís­landi

Í kjöl­far við­takanna hafa Reykja­víkur­dætur að eigin sögn leitað á önnur mið. „Við fundum okkur annan mark­hóp vegna þess að við vorum svo inni­lega ó­vel­komnar hérna heima.“

Þá segist Salka hafa upp­lifað að margar af með­limunum hafi hrein­lega flúið land. „Við urðum fyrir ein­elti sem hljóm­sveit og allar stelpurnar innan hljóm­sveitarinnar hafa upp­lifað þetta sem ein­hvers­konar trauma í þeirra lífi.“

„Við urðum fyrir ein­elti sem hljóm­sveit og allar stelpurnar innan hljóm­sveitarinnar hafa upp­lifað þetta sem ein­hvers­konar trauma í þeirra lífi.“

Efast um að eins hefði farið fyrir körlum

Með­limir hljóm­sveitarinnar hafa bent á að um­mæli Önnu Svövu séu því hluti af svo miklu stærri orð­ræðu sem sé ekki bara skað­leg fyrir þær sjálfar heldur senuna eins og hún leggur sig. „Þetta snýst ekki um hvort að fólk fíli tón­listina okkar heldur hvort það beri virðingu fyrir okkur,“ segir Katrín. Hún leyfir sér að efast um að fólk tali um að það neyðist til að fíla popp­tón­list eftir karl­menn fram­leiða.

„Viku­lega spretta upp nýir karl­kyns rapparar og þeir sem eru ekki góðir hverfa bara úr sviðs­ljósinu án þess að það þurfi að ræða það eitt­hvað frekar,“ segir Salka. Hún tekur fram að konur í hip hopi og konur al­mennt séu hins vegar alltaf undir smá­sjá. „Það er ekkert pláss fyrir mis­tök eða byrj­endur sem eru konur.“

Reykjavíkurdætur komu fram á gleðigöngunni í Osló í sumar.

Fáar sem vilja gefa skot­leyfi á sér

„Ég held að það hvernig Reykja­víkur­dætrum var tekið hafi haft bein á­hrif á það hversu fáar konur hafi seinna orðið rapparar eða hafa reynt að stíga sín fyrstu skref í hip hopi,“ segir Salka. Að hennar sögn er sorg­leg stað­reynd að að­eins sé hægt að finna hand­fylli af kven­kyns­röppurum í far­sælustu tón­listar­stefnu Ís­lands.

„Hvaða skila­boð er verið að senda til ungra kvenna þegar kven­kyns rapparar eru opin­ber­lega skotnar niður?“ spyr Katrín sig og svarar um hæl, „Það er verið að segja að með því að reyna þetta sértu að setja skotskífu á bakið á þér.“

„Það er verið að segja að með því að reyna þetta sértu að setja skotskífu á bakið á þér.“

Skað­leg orð­ræða talin eðlileg

Katrín og Salka á­rétta að þeirra gagn­rýni sé ekki beint per­sónu­lega að Önnu Svövu og hennar um­mælum heldur því að fólki finnist eðli­legt að tala svona. „Þetta ristir mun dýpra heldur en ein­hver brandari.“ Marg­laga hatur og skömm hafi um­lukið hljóm­sveitina á Ís­landi í mörg ár að mati Sölku.

„Það hlýtur að teljast til tíðinda að kven­hljóm­sveit, sem hefur tekist að hasla sér völl er­lendis, sé niður­lægð opin­ber­lega trekk í trekk án þess að neinn kippi sér upp við það.“

„Að þora meðan aðrir þegja hefur alltaf verið á­berandi í um­ræðunni um okkur, eins og það þurfi mikið hug­rekki til að tala illa um hljóm­sveitina,“ segir Katrín Helga.