Reykjavíkurborg skoðar nú hvort fresta þurfi Menningarnótt sem áætlað er að fari fram þann 21. ágúst næstkomandi. Þetta staðfestir Guðmundur Birgir Halldórsson, verkefnastjóri viðburða Menningarnætur.

„Það er klárlega í skoðun. Ákvörðunin sem slík, eins og í fyrra, er tekin í samtali við neyðarstjórn borgarinnar, sem er hópur fólks hjá borginni sem hittist reglulega, þannig að það er smá fyrirtæki að taka þá ákvörðun,“ segir Guðmundur.

Hann segir niðurstöðu vera að vænta í síðasta lagi á þriðjudaginn eftir verslunarmannahelgi en borgin hefur gefið sér frest þangað til vegna sumarleyfis starfsmanna.

Samkvæmt nýjum samkomutakmörkunum sem tóku gildi um síðustu helgi mega hámark tvö hundruð manns koma saman og fjarlægðarmörk miðast við einn metra. Reglurnar gilda til 13. ágúst næstkomandi og fellur Menningarnótt ekki innan þess tímabils, ólíkt þeim stórhátíðum sem halda átti um verslunarmannahelgina og hefur nær undantekningarlaust verið aflýst.

Menningarnótt var aflýst í fyrra vegna samkomutakmarkana í fyrsta skipti í sögu hátíðarinnar frá stofnun hennar 1996.

„Það er neyðarstjórn sem tekur lokaákvörðun og hún er að fara að funda þannig að hún mun klárlega fara yfir málið,“ segir Guðmundur.