Fimm­menningarnir sem vöktu at­hygli á mál­efnum vöggu­stofa í Reykja­vík síðasta sumar funduðu með Þor­steini Gunnars­syni, borgar­ritara, á mánu­dag. Á fundinum var til­kynnt að borgar­ráð mun skipa rann­sóknar­nefnd til að rann­saka starf­semi vöggu­stofa í Reykja­vík á næstu vikum. Árni H. Kristjánsson, einn fimm­menninganna, fagnar niður­stöðunni og segir að ekkert sé nú til fyrir­stöðu að hefja rann­sóknina.

„Málið er í rauninni komið lengra en við þorðum að vona. Reykja­víkur­borg óskaði eftir for­greiningu frá borgar­skjala­safni um hvaða gögn eru til og það er mjög mikið af gögnum til sem á eftir að fara í gegn. Eins voru á­bendingar um hvar gögn kunna að leynast, það er meðal annars á Heilsu­gæslu­stöðvum og Þjóð­skjala­safni og víðar,“ segir Árni.

Rann­sóknar­nefndin verður sjálf­stæð og fær fjár­magn úr borgar­sjóði til að greiða sér­fræði­að­stoð og annan kostnað. Búist er við að gengið verði frá skipan nefndarinnar á borgar­ráðs­fundi í þar­næstu viku.

Nefndin verði ekki pólitísk

Árni telur lík­legt að nefndin muni inni­halda alla­vega einn lög­fræðing, sagn­fræðing og svo sál­fræðing eða sér­fræðing á sviði á­falla­streitu­röskunar.

„Eina krafan sem við gerðum var að þetta yrði ekki pólitísk skipun, það verður kannski alltaf, en reyna að hafa þetta fag­legt. Málið er að mörgu leyti pólitískt,“ segir hann.

Árni, sem er sagn­fræðingur að mennt, hefur sjálfur rann­sakað sögu vöggu­stofa í Reykja­vík á árunum 1949-1973, út frá þeim gögnum sem til­tæk eru. Hann segir að málið hafi fallið í grýttan jarð­veg þegar fyrst var vakið at­hygli á starfs­háttum vöggu­stofa um mið­bik sjöunda ára­tugarins vegna þess að hægri menn, undir for­ystu Geirs Hall­gríms­sonar borgar­stjóra, gerðu málið flokks­pólitískt.

„Eftir að þetta var af­hjúpað 1967 af Dr. Sigur­jóni og Öddu Báru þá var málið gert flokks­­pólitískt. Þau voru bara ein­hverjir kommar, hægri­­menn voru með borgina, og þetta var af­­greitt eins og þau vildu koma höggi á í­haldið,“ sagði Árni í við­tali við Frétta­blaðið í júlí.

Yfir 1500 börn vistuð

Borgar­ritari hefur á­samt borgar­lög­manni og fleiri em­bættis­mönnum unnið að málinu síðan í sumar eftir að fimm­menningarnir gengu á fund Borgar­stjóra þann 7. júlí. Ljóst er að rann­sóknin mun verða mjög víð­tæk og hefur Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, gefið vil­yrði fyrir að­stoð við það sem þarfnast að­komu Al­þingis og lög­gjafans, svo sem mögu­legar breytingar á laga­á­kvæðum.

Árni hefur orðið var við mikinn á­huga á málinu hjá fólki sem var vistað á vöggu­stofum og að­stand­endum þeirra en stofnuð var sér­stök Face­book grúppa sem ber nafnið RÉTT­LÆTI þar sem fólk getur deilt sögum sínum og fréttum.

„Þetta var nefni­lega svo mikill fjöldi barna. Það voru 510 vistuð á Hlíðar­enda og svo voru ár­lega um 100 á Vöggu­stofu Thor­vald­sens, þá erum við komin vel yfir 1500. Svo er nú að koma í ljós að Reykja­víkur­borg virðist hafa rekið, ekki beint vöggu­stofu, en alla­vega deild sem vöggu­stofu á­fram, alveg til 1979, í sama hús­næði og vöggu­stofa Thor­vald­sens var,“ segir Árni.