Fimmmenningarnir sem vöktu athygli á málefnum vöggustofa í Reykjavík síðasta sumar funduðu með Þorsteini Gunnarssyni, borgarritara, á mánudag. Á fundinum var tilkynnt að borgarráð mun skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka starfsemi vöggustofa í Reykjavík á næstu vikum. Árni H. Kristjánsson, einn fimmmenninganna, fagnar niðurstöðunni og segir að ekkert sé nú til fyrirstöðu að hefja rannsóknina.
„Málið er í rauninni komið lengra en við þorðum að vona. Reykjavíkurborg óskaði eftir forgreiningu frá borgarskjalasafni um hvaða gögn eru til og það er mjög mikið af gögnum til sem á eftir að fara í gegn. Eins voru ábendingar um hvar gögn kunna að leynast, það er meðal annars á Heilsugæslustöðvum og Þjóðskjalasafni og víðar,“ segir Árni.
Rannsóknarnefndin verður sjálfstæð og fær fjármagn úr borgarsjóði til að greiða sérfræðiaðstoð og annan kostnað. Búist er við að gengið verði frá skipan nefndarinnar á borgarráðsfundi í þarnæstu viku.
Nefndin verði ekki pólitísk
Árni telur líklegt að nefndin muni innihalda allavega einn lögfræðing, sagnfræðing og svo sálfræðing eða sérfræðing á sviði áfallastreituröskunar.
„Eina krafan sem við gerðum var að þetta yrði ekki pólitísk skipun, það verður kannski alltaf, en reyna að hafa þetta faglegt. Málið er að mörgu leyti pólitískt,“ segir hann.
Árni, sem er sagnfræðingur að mennt, hefur sjálfur rannsakað sögu vöggustofa í Reykjavík á árunum 1949-1973, út frá þeim gögnum sem tiltæk eru. Hann segir að málið hafi fallið í grýttan jarðveg þegar fyrst var vakið athygli á starfsháttum vöggustofa um miðbik sjöunda áratugarins vegna þess að hægri menn, undir forystu Geirs Hallgrímssonar borgarstjóra, gerðu málið flokkspólitískt.
„Eftir að þetta var afhjúpað 1967 af Dr. Sigurjóni og Öddu Báru þá var málið gert flokkspólitískt. Þau voru bara einhverjir kommar, hægrimenn voru með borgina, og þetta var afgreitt eins og þau vildu koma höggi á íhaldið,“ sagði Árni í viðtali við Fréttablaðið í júlí.
Yfir 1500 börn vistuð
Borgarritari hefur ásamt borgarlögmanni og fleiri embættismönnum unnið að málinu síðan í sumar eftir að fimmmenningarnir gengu á fund Borgarstjóra þann 7. júlí. Ljóst er að rannsóknin mun verða mjög víðtæk og hefur Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, gefið vilyrði fyrir aðstoð við það sem þarfnast aðkomu Alþingis og löggjafans, svo sem mögulegar breytingar á lagaákvæðum.
Árni hefur orðið var við mikinn áhuga á málinu hjá fólki sem var vistað á vöggustofum og aðstandendum þeirra en stofnuð var sérstök Facebook grúppa sem ber nafnið RÉTTLÆTI þar sem fólk getur deilt sögum sínum og fréttum.
„Þetta var nefnilega svo mikill fjöldi barna. Það voru 510 vistuð á Hlíðarenda og svo voru árlega um 100 á Vöggustofu Thorvaldsens, þá erum við komin vel yfir 1500. Svo er nú að koma í ljós að Reykjavíkurborg virðist hafa rekið, ekki beint vöggustofu, en allavega deild sem vöggustofu áfram, alveg til 1979, í sama húsnæði og vöggustofa Thorvaldsens var,“ segir Árni.