Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar, segir að stefnt sé að því að fara í útboð vegna raforkukaupa og LED-ljósavæðingu borgarinnar.

Um er að ræða innkaup sem nema hundruðum milljóna á ári og gætu sparað verulega rekstrarkostnað.

Málið var rætt á fundi borgarráðs í vikunni þar sem farið var yfir úrskurð áfrýjunarnefndar útboðsmála frá því maí. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu í kjölfarið fram tillögu um að farið yrði í útboð.

„Það er pólítískur vilji hjá meirihlutanum að fara í einu og öllu eftir úrskurði áfrýjunarnefndar útboðsmála og setja raforkukaup og LED-væðingu borgarinnar í útboð,“ segir Þórdís Lóa.

„Slík ákvörðun er í fullu samræmi við innkaupastefnu borgarinnar. Þarna erum við að tala um að bjóða út kaup á raforku sem borgin hefur keypt af sama aðila frá árinu 1921 þannig að þetta eru mikil tímamót.“