Starfsmenn Reykjavíkurborgar fönguðu og fjarlægðu kött í miðbæ Reykjavíkur í kjölfar kvartana frá ósáttum nágranna á laugardaginn síðastliðinn án þess að láta eigendur hans vita.

Rúmum sólarhring síðar komust eigendur kattarins, Nóru, að því hvað hefði orðið af henni og höfðu samband við Reykjavíkurborg.

Í ljós kom að Nóra hafði sloppið úr vörslu borgarinnar fyrir sólarhring síðan og er nú týnd í Laugardalnum, langt í burtu frá heimili sínu.

Þuríður Blær Jóhannsdóttir, leik- og söngkona og annar eigandi Nóru, segir málið allt hið leiðinlegasta.

„Ég talaði við mann hjá Reykjavíkurborg og þau voru auðvitað mjög leið yfir þessu. Hann tók fram að þetta yrði kannski til þess að þau myndu breyta verkferlum sínum og jafnvel til þess að þau hættu að klófesta ketti í gildrur sem ég vona að verði raunin,“ segir Þuríður Blær í samtali við Fréttablaðið.

Létu eigendur ekki vita

Þuríður Blær segir starfsmenn borgarinnar ætla hafa augun opin í Laugardalnum og sjá hvort að Nóra komi í leitirnar. „Það sem er óþægilegt er að nú þurfum við bara að bíða og vona að hún skili sér af sjálfsdáðum eða að fólk í nærliggjandi umhverfi hafi augun opin,“ segir Þuríður Blær en þau hafa birt myndir á Facebook af Nóru í von um að hún komist í leitirnar sem fyrst.

Að sögn Þuríðar Blævar finnst þeim verst að hafa ekki verið látin vita af aðgerðum borgarinnar. Þau hafi verið heppin að kona í húsinu hafi séð starfsmenn borgarinnar koma með stálkassa og ná í köttinn og í kjölfarið hafi maðurinn hennar gengið á nágrannann sem kvartaði og fengið hann til að viðurkenna hvað hefði gerst.

Annars hefðu þau ekkert vitað hvað hefði orðið um Nóru. Þuríður Blær segir að samkvæmt samtali við starfsmann borgarinnar séu aðgerðir sem þessar ekki algengar.

„Þau gera þetta ekki nema það sé eitthvað sem kalla mjög akút dæmi, sem þetta var vissulega ekki,“ segir Þuríður Blær og bætir við að þau vilji að Nóra skili sér heil heim.