Yfirmaður ráðgjafarstofnunar Rússlands í málefnum Bandaríkjanna segir líklegt að leiðtogafundur Vladímírs Pútín og Joes Biden fari fram í Reykjavík í sumar. Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins segir enga ósk hafa borist um slíkt. Hún myndi koma með skömmum fyrirvara.
Reykjavík hefur verið nefnd sem sennilegur fundarstaður Joes Biden Bandaríkjaforseta og Vladímírs Pútín Rússlandsforseta í sumar. Viðræður eru í gangi milli stórveldanna um fundinn og verði hann haldinn verður aðalumræðuefnið sú aukna harka sem færst hefur í stríðið í Austur-Úkraínu undanfarnar vikur og mánuði. Á þriðjudag bauð Biden Pútín símleiðis að halda fundinn utan Bandaríkjanna og Rússlands.
Í Pravda, Ria Novosti og fleiri rússneskum miðlum er vitnað í Sergei Rogov, yfirmann ISKRAN sem er ráðgjafarstofnun Rússlands í málefnum Bandaríkjanna og Kanada. Hlutverk stofnunarinnar er meðal annars að skipuleggja ráðstefnur og fundi.
Við ríkismiðilinn Ria Novosti segir Rogov Reykjavík hafa sögulega merkingu og vísaði til leiðtogafundarins í Höfða árið 1986. „Á fundinum urðu þáttaskil í kalda stríðinu og spennan minnkaði,“ segir hann. „Á fundinum gætu Pútín og Biden samþykkt ályktanir Gorbasjovs og Reagans um að það verði ekkert kjarnorkustríð og að það séu engir sigurvegarar í slíku stríði.“
Ísland er hins vegar ekki eini staðurinn sem hefur verið nefndur en þrjár þjóðir, Finnar, Tékkar og Austurríkismenn, hafa þegar lýst yfir áhuga á að halda leiðtogafundinn.
Ekkert erindi borist
Það hefur engin ósk borist um að halda leiðtogafund hér en ef hún bærist yrði hún tekin til jákvæðrar skoðunar,“ segir Sveinn Guðmarsson upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins. „Það myndi ábyggilega gerast með stuttum fyrirvara.“
Sveinn minnir þó á að svipaður orðrómur hafi farið í gang þegar Pútín fundaði með Donald Trump, forvera Bidens, í fyrsta skipti. Sá fundur var haldinn í Helsinki 16. júlí árið 2018.
Með fundinum vonast Biden eftir því að draga úr spennunni sem skapast hefur í Donbasshéraði í Úkraínu, sem rússneskir uppreisnarmenn hafa á valdi sínu. Rússar hafa sakað Úkraínumenn um að sækja hart fram í héraðinu og gengið svo langt að líkja ástandinu við fjöldamorðið í Srbrenica árið 1995. Hafa Rússar safnað upp miklum her við landamærin og auk Bidens hefur Angela Merkel Þýskalandskanslari rætt við Pútín um stöðuna.
Fréttir af viðbrögðum Rússa hafa verið misvísandi. Í gær sagði Maria Zakharova, talsmaður Sergeis Lavrov utanríkisráðherra, að Pútín hefði ekki hug á því að funda með Biden. Framganga Bandaríkjamanna hefði skaðað samskiptin. Einnig bárust fréttir af því frá Kreml að Pútín myndi taka það til greina að funda með Biden.
Þótt enn sé óvíst með fund forsetanna verður gestkvæmt hér á landi þegar ráðherrafundur Norðurskautsráðsins verður haldinn 19.-20. maí. Þar tekur Rússland við formennsku í ráðinu af Íslandi. Undir venjulegum kringumstæðum kæmu utanríkisráðherrar aðildarríkjanna, þar á meðal Rússlands og Bandaríkjanna, til ráðherrafundarins og Lavrov hefur gefið það út að hann muni mæta. Sveinn Guðmarsson segir að í ljósi faraldursins sé enn verið að útfæra nákvæma framkvæmd fundarins og ekki sé ljóst hverjir sæki hann.