Fylgi Sjálf­stæðis­flokksins í Reykja­vík heldur á­fram að lækka sam­kvæmt nýrri könnun Prósents og er nú þriðji stærsti flokkurinn í borginni. Fylgið mælist nú 16,2 prósent með vik­mörkum upp á 2,6 prósent.

Flokkurinn fékk 30,8 prósent í síðustu borgar­stjórnar­kosningum. Í síðustu könnun Prósents, frá 28. apríl síðast­liðnum, fékk hann 19,4 prósent. Verði þetta raunin á kjör­dag missir Sjálf­stæðis­flokkurinn 4 af 8 borgar­full­trúum sínum.

Sam­fylkingin mælist nú á­berandi stærsti flokkurinn í borginni með 26,7 prósenta fylgi og vik­mörk upp á 3,3 prósent. Þetta er yfir kjör­fylgi flokksins í síðustu kosningum, 25,9 prósent, og í síðustu könnun fékk flokkurinn 23,3 prósent. Miðað við þetta heldur Sam­fylkingin sínum 7 full­trúum.

Næst stærsti flokkurinn í borginni eru Píratar sem mælast nú með 17,9 prósent, meira en 10 prósentum meira en í síðustu kosningum og 2 prósentum meira en í síðustu könnun. Vik­mörkin eru 2,8 prósent. Sam­kvæmt þessu tvö­falda Píratar sinn full­trúa­fjölda, fara úr 2 í 4.

Framsókn enn með þrjá menn inni

Fram­sóknar­flokkurinn heldur sama fylgi og í síðustu könnun og mælist með 12,4 prósent. Þetta er það sama og í síðustu könnun og þýðir 3 kjörna full­trúa en flokkurinn hefur engan í dag. Vik­mörk eru 2,3 prósent.

Sósíal­istar hækka um hálft prósent frá síðustu könnun og mælast nú með 7,7 og 2 full­trúa. Við­reisn bætir lítil­lega við sig og mælist með slétt 7 prósent. En það myndi ekki duga flokknum til að halda báðum sínum borgar­full­trúum. Vinstri græn tapa tæpu prósenti milli kannana og mælast með 5,4 og einn full­trúa. Flokkur fólksins tapar rúmum 2 prósentum frá síðustu könnun en er nokkurn veginn á pari við kjör­fylgi sitt og heldur sínum full­trúa. Vik­mörk flokkanna eru á bilinu 1,4 til 1,9 prósent.

Mið­flokkurinn mælist með 1,7 prósent og er langt frá því að halda sínum full­trúa líkt og í síðustu könnun. Á­byrg fram­tíð og Reykja­vík – besta borgin mælast sitt hvoru megin við hálfa prósentið.

Meirihlutinn bætir við sig manni

Sam­kvæmt þessu bætir nú­verandi borgar­stjórnar­meiri­hluti við sig einum manni og myndi fá 13 en minni­hluta­flokkarnir 10.

Fylgi eftir atkvæði í síðustu kosingum

Sósíal­istar halda sínu fólki

Þegar litið er til síðustu borgar­stjórnar­kosninga ætla að­eins 66 prósent af þeim sem kusu Sjálf­stæðis­flokkinn að gera það aftur. En það er lágt hlut­fall fyrir hann. 16 prósent ætla hins vegar að kjósa Fram­sóknar­flokkinn. Auk þess að taka af Sjálf­stæðis­mönnum taka Fram­sóknar­menn 23 prósent af kjós­endum Við­reisnar frá 2018 og 15 prósent af kjós­endum Vinstri grænna.

Enginn flokkur heldur betur kjós­endum sínum en Sósías­listar, 71 prósent, og Sam­fylkingin er ekki langt undan með 70 og Fram­sóknar­flokkurinn 69.

Píratar sterkir hjá yngsta hópnum

Þegar litið er til kynjanna höfða Sam­fylking og Fram­sóknar­flokkur meira til kvenna en karla. Sjálf­stæðis­flokkurinn og Við­reisn hafa meira fylgi hjá körlum hins vegar. Kynja­munurinn hjá þessum flokkum er á bilinu 3 til 5 prósent en aðrir flokkar eru nokkuð jafnir hvað kynin varðar.

Fylgi eftir aldurshópum

Píratar eru lang­stærsti flokkurinn hjá yngsta kjós­enda­hópnum, 18 til 24 ára, og mælast með 30 prósenta fylgi.

Sam­fylkingin mælist stærsti flokkurinn í öllum öðrum aldurs­hópum.

Sjálf­stæðis­flokkurinn hefur á bilinu 20 til 22 prósenta fylgi hjá 45 ára og eldri en að­eins 6 til 14 prósenta fylgi hjá yngri aldurs­hópunum.

Fram­sókn leiðir í Grafar­holti og Úlfarsár­dal

Þegar litið er til hverfa borgarinnar þá er Sam­fylkingin sterkust í eldri hverfum borgarinnar, til dæmis með 42 prósenta fylgi í Mið­borginni og 36 prósent í Vestur­bænum.

Píratar mælast stærstir í Selja­hverfinu með 23 prósent, Flokkur fólksins í Breið­holtinu með 27 og Sjálf­stæðis­flokkurinn í bæði Árbæ og Grafar­vogi, 27 og 25 prósenta fylgi.

Fram­sóknar­flokkurinn mælist nú stærstur í Grafar­holti og Úlfarsár­dal með 22 prósent.

Fylgi eftir póstnúmerum

Könnunin var net­könnun fram­kvæmd 5. til 9. maí. Úr­takið var 1.750 ein­staklingar og svar­hlut­fallið 50,4 prósent.