Reykjavík Food Festival verður haldið hátíðlega á Skólavörðustíg næstkomandi laugardag. Uppskeru verður þar fagnað í öllum geirum og boðið upp á bæði klassíska og nýstárlega rétti, en alls taka fjórtán veitingastaðir þátt í ár.

Meira en bara beikon

Hátíðin, sem byrjaði sem Reykjavík Bacon Festival, breytti nafni sínu í Reykjavík Food festival árið 2016, til þess að fá breiðari flóru í matarmenninguna. „Áhersla hátíðarinnar er að allir sem vilja geta verið með,“ segir Árni Georgsson, meðlimur Íslenska beikonbræðralagsins sem heldur hátíðina ár hvert.

Það eru ófáir sem koma að hátíðinni í ár þar sem hvers kyns bændur bjóða upp á allra ferskasta hráefni úr íslenskri náttúru. „Það er ótrúlega gaman að fá grænmetis- og sauðfjárbændur inn og auðvitað mjólkina og fiskinn líka.“ Árni telur það sem megin máli skiptir vera að allir geti tekið þátt. 

Árni Georgsson er sérstakur aðdáandi beikons.
Fréttablaðið/Andri

Krydd sem virkar

„Það er ekki lengur megin áhersla á beikon en beikonið bindur þetta saman,“ segir Árni. Að hans mati er beikon eins og krydd sem virkar með öllum mat. „Það er auðvitað hægt að vera með grænmetis og kjúklinga beikon líka." 

Árlega koma gestir frá Bandaríkjunum á hátíðina og þá sérstaklega þeir sem stunda svokallaðar „beikonhátíðir.“ Í fyrra kom til að mynda beikonprestur sem gaf saman tvær kindur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. Árni segist eiga von á ófáum fastagestum hátíðarinnar í ár.

Ekkert sem heitir vont veður

Búið er að spá rigningu um helgina en Árni kveðst ekki hafa miklar áhyggjur af því. Hann segir veðrið vera stóran þáttur í því að halda slíka útihátíð en að það sé aldrei hægt að spá fyrir um það. „Það er ekkert sem ég kalla vont veður,“ segir Árni kíminn. „Sama hvernig viðrar munum við bjóða upp á úrvalsrétti hér á Skólavörðustígnum.“

Árni hvetur alla landsmenn til að líta við á laugardaginn og gæða sér á úrvalsréttum úr auðlindum landsins. „Það verður frábært stemmning og eitthvað í boði fyrir alla, því get ég lofað.“

Hér gæða feðgar sér á beikoni.