Frétt uppfærð 10:40: Búið að opna veginn á ný.

Ökumenn hafa lent í vandræðum á Reykjanesbrautinni í morgun vegna slæmrar færðar og hafa nokkrir bílar farið út af veginum, þar á meðal rúta.

Vegagerðin segir að lítið sem ekkert skyggni sé á veginum sem hefur nú verið lokað tímabundið. Vonast er til að lokunin standi í stuttan tíma. Reykjanesbrautinni var lokað í morgunsárið og opnaði aftur klukkan 8 í morgun en var svo lokað aftur klukkan 9:21.

Lögreglan á Suðurnesjum segir að tjón hafi orðið á bílum en engin hafi slasast. „Þetta er smávægilegt tjón á bílum en engin slys á fólki,“ sagði varðstjóri í samtali við Fréttablaðið

Vegfarandi á leið til Keflavíkur sagði í samtali við Fréttablaðið að rúta hafi farið út af veginum

„Það voru nokkrir sem voru út í vegriðinu sem höfðu bara runnið út af. Svo var rúta út af veginum og kannski sex eða sjö bílar á vegarkantinum. Þó brautin var opin þá var hún eiginlega ekki fær. Ég myndi ekki hvetja fólk að fara út á brautina,“ sagði sjónavottur sem ók á 45 kílómetra hraða, svo lélegt var skyggnið.